150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[20:00]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni prýðisgott andsvar og vangaveltur í þessum efnum. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni, það eru miklar mótsagnir í því sem hv. þingmaður nefndi í aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Eins og hv. þingmaður nefndi réttilega, og ég hef nefnt það hér, er verið að tala um að halda í ráðningarsambandið, og síðan á hinum endanum er verið að hvetja fyrirtæki — ja, það er bara óhætt að orða það þannig — til segja upp vegna þess að það er náttúrlega hvatning að fá peninga til að geta sagt upp starfsfólki. Enda sáum við að um leið og þetta var gefið út kom holskefla af hópuppsögnum. Mér finnst þetta bera vott um að ríkisstjórnin sé í einhverju panikástandi og viti ekki nákvæmlega hvað hún eigi að gera næst. Hún grípur bara eitthvað sem einhver hefur bent henni á; að eitthvert ákveðið fyrirtæki þurfi á þessu að halda, og þá er því tekið opnum örmum og gert að aðgerð sem ég held að hafi ekki verið nægjanlega vel ígrunduð.

Það er annað sem einnig er vert að minnast á hér, að þær aðgerðir, sem margar hverjar hafa verið samþykktar, stórar aðgerðir, eins og t.d. brúarlánin upp á 50 milljarða kr. og síðan stuðningslánin upp á um 40 milljarða, eru ekki enn komnar til framkvæmda. Þær eru óútfærðar. Mikil stífni hefur verið í samningagerðinni milli Seðlabanka og fjármálafyrirtækjanna við að útfæra þessi lán o.s.frv. Það lá hins vegar einhver ósköp á að samþykkja þetta í fjárlaganefnd. Við fengum ekki að kalla til gesti eða nokkurn skapaðan hlut og fara ígrundað yfir málið. Þannig að það er eitthvert fát og fljótfærni í mörgu því sem ríkisstjórnin hefur að gera, því miður, sem hún hefði þurft að ígrunda mun betur.