150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[20:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að fara aðeins yfir það sem hefur verið nýlega nefnt hér í pontu upp á síðkastið, þ.e. skattamál og sér í lagi tryggingagjald. Ég hef hoggið eftir því alla vega í tvígang að hv. 3. þm. Suðurk., Birgir Þórarinsson, hefur lagt til að tryggingagjald verði fellt niður út árið. Það er tillaga á leiðinni, skilst okkur, út frá ræðu hv. þingmanns sem ég kem einnig til með að skoða með mjög opnum huga, eins og hv. þingmaður nefndi um tillögu sem kemur frá Pírötum. En fleiri hafa stungið upp á öðru sem er frestun nauðungarsölu og mig langar einmitt að nefna það mál.

Þingflokkur Pírata lagði nýlega fram, í gær minnir mig, frumvarp um að fresta nauðungarsölum. Það frumvarp er byggt á öðrum sem hafa verið lögð fram við aðrar aðstæður og af öðrum sökum og af þeim ástæðum vitum við að það stenst alveg próf lagatækninnar. Við vitum að þetta gengur, við vitum að þetta virkar, við vitum að þetta er hægt. Sömuleiðis teljum við okkur vita að ef einhvern tímann voru aðstæður og ástæður til að fresta nauðungarsölum er sá tími klárlega núna. En ég verð líka að segja að okkur lá svolítið á að leggja frumvarpið fram vegna þess að því fyrr sem málin koma fram því líklegra er að þau fái almennilega umræðu í tæka tíð. Það á ekki að líta þannig á að þingflokkur Pírata sé að reyna að skera sig úr sem eini flokkurinn sem styðji þetta.

Sú hugmynd um að fresta nauðungarsölum er ekkert einkamál Pírata heldur hefur oft komið fram stuðningur úr ýmsum áttum við hana. Ég vil því ekki meina að við höfum neitt einkaleyfi á þessu frekar en mörgum öðrum góðum hugmyndum sem þó eru lagðar fram og sömuleiðis er alvanalegt að góð mál flakki eitthvað á milli flokka, sér í lagi eftir kjörtímabilum, en jafnvel bara innan hvers kjörtímabils og ekkert við það að athuga. Ég vildi bara nefna þetta vegna þess að flutningsmenn tillögunnar á plagginu eins og er eru einungis þingmenn Pírata. Markmiðið er ekki að þykjast vera meiri hetjur en annað fólk sem hefur lagt þetta sama efni til.

Hvað varðar skatta og sér í lagi í kjölfar ágætrar umræðu sem við hv. þm. Willum Þór Þórsson og hv. þm. Birgir Þórarinsson áttum hér áðan hef ég verið að velta fyrir mér því sem hv. þm. Willum Þór Þórsson sagði um mikilvægi þess að halda jafnvægi í tekjum og útgjöldum ríkissjóðs þegar fram líða stundir, sérstaklega í sumar og haust, það geti orðið ákveðinn línudans. Ég hygg að það sé hárrétt. En sé litið til þeirrar tilteknu áskorunar þá hygg ég að mikilvægast sé að reyna að styðja fólk með því að draga úr skattbyrði, ekki bara hjá fyrirtækjum heldur líka einstaklingum. Það er auðvitað háð allri þeirri miklu skoðun sem slíkar aðgerðir þurfa af hv. fjárlaganefnd og hv. efnahags- og viðskiptanefnd, vegna þess að það er auðvelt að ímynda sér og leggja eitthvað til en annað er að reikna út hvaða áhrif það hefur. Síðan er auðvitað ekki ljóst nákvæmlega hvaða áhrif allar þessar aðgerðir hafa þegar þær koma saman. Það verður ekki ljóst fyrr en eftir á. Eins og hv. þm. Willum Þór Þórsson nefndi áðan búum við blessunarlega við það að samkvæmt lögum um opinber fjármál höfum við fjármálaráð til að aðstoða okkur við að meta áhrif gjörða okkar.

En það að gera hlutina einungis með sköttum er heldur ekki góð hugmynd vegna þess að hér yrði að ræða það í samhengi við það tiltekna vandamál hver línudansinn yrði í kjölfarið við að halda jafnvægi milli útgjalda og tekna. Það er ekki eini vandinn, að passa að jafnvægi sé þar á milli. Vandinn er líka fjárflæði, það sé einfaldlega næg eftirspurn í landinu til að drífa áfram störf. Þar lendum við í nokkrum óþægilegum vandamálum og kannski einstaka kaldhæðnislegum vandamálum, sér í lagi með tilliti til loftslagsbreytinga. Við stöndum frammi fyrir því núna að þurfa að drífa í gang í raun og veru rosalega mikla neyslu á tímum þar sem við erum annars að reyna að draga úr henni. Þetta er ákveðin innbyggð kaldhæðni í aðstæðum okkar sem ég hygg að við séum rétt að byrja að átta okkur á hversu djúpstæð er. Nú hafa þessar aðstæður, af fréttum sem ég heyri, gert að verkum að dregið hefur úr losun gróðurhúsalofttegunda um 8% í heiminum, sem er það mesta sem vitað er til að hafi nokkurn tímann gerst. Myndi maður ætla að það væri gríðarlegur árangur, en það þyrfti að vera það sama til ársins 2050 til að við næðum markmiðum okkar, sem segir okkur svolítið um það að í þessum aðstæðum, þessum hræðilegu aðstæðum, ættum við í sjálfu sér að biðja um meira. Það ætti að kalla fram kaldan svita, virðulegi forseti, því að varla viljum við óska okkur þess.

Punkturinn er þessi: Við þurfum að hugsa meira inn í framtíðina, ekki bara út frá þessum tilteknum aðstæðum og hvernig við snúum aftur til ársins 2018 og 2019. Við þurfum að hugsa lengra inn í það hvernig við ætlum að halda uppi mannlegu samfélagi og þeirri velferð sem við ætlum að halda uppi með hliðsjón af raunveruleika sem er í grundvallaratriðum frábrugðinn þeim sem við lifðum áður. Þetta er ákallið sem loftslagsbreytingar æpa upp í andlitið á okkur en við höfum hunsað vegna þess að við finnum ekki áhrifin á eigin skinni alveg strax, þau koma löngu seinna. Það er vel þekkt í allri sálfræði að fólk bregst við sársauka sem kemur strax. Fólk er ekki mjög gott í því að taka ákvarðanir út frá eigin hagsmunum ef áhrif þeirra koma bara fram síðar í framtíðinni. Þetta er vel þekkt og ég hugsa að allt fólk kannist alveg við það að leggja ekki fyrir til efri áranna þegar það er ungt sem dæmi. Þetta er nákvæmlega sama lógík, nákvæmlega sama rökfræðin, virðulegur forseti.

Við erum að sjálfsögðu ekki með neina lausn á þessu. Við biðjum kannski hv. Miðflokk um lausnirnar við þeim málum eins og öllum öðrum. En þetta er eitthvað sem mér finnst þess virði að velta fyrir sér þegar við erum að einblína á það tiltekna vandamál að ná efnahagnum aftur á skrið. Nú er ég ekki bara að tala í vandamálum, samanber undarlega ræðu sem ég heyrði hér nýlega um að hv. þingflokkur Vinstri grænna væri svona vandamálaflokkur en hv. Miðflokkur lausnaflokkur, áhugaverð nálgun. En þetta er útúrdúr.

Mig langar líka aðeins að fara yfir lausnir eða alla vega fræði að lausnum. Það er í stuttu máli, ef ég þyrfti að kremja alla þá fræði niður í eitt orð, nýsköpun. Vísindi og framþróun í þekkingu og tækni. Það eru jú vísindin og nýsköpun og framþróun á sviði tækni sem hefur drifið áfram velmegun mannkynsins núna í dágóðan tíma. Og vel að merkja — stóru, virkilega stóru vandamálin í heiminum í dag, svo sem loftslagsbreytingar, þunglyndi, offita í sumum samfélögum, eru svokölluð velmegunarvandamál sem eru til komin vegna þess að okkur gengur svo rosalega vel að það er eiginlega aðeins of mikið af því góða. Það ætti að segja okkur ýmislegt. Það segir okkur ekki að vísindin séu vandamál í sjálfu sér. Það þýðir að vísindin virka svo rosalega vel. Það þýðir enn fremur eða alla vega hefur það reynst vera þannig að þegar vísindin búa til vandamál eða leiða af sér einhver vandamál þá er lausnirnar oft að finna á sama stað, nefnilega í vísindum og nýsköpun.

Staðan á Íslandi er þannig að við höfum haft þrjár, kannski fjórar útflutningsgreinar sem mest er talað um og núna ferðaþjónustuna sem hefur verið hvað stærst upp á síðkastið en er akkúrat núna í þessum orðum varla til lengur, er varla svipur hjá sjón miðað við það sem hún var fyrir örfáum mánuðum. Ég óttast að sá atvinnuvegur verði ekki eins og hann var í dágóðan tíma. Horfumst bara í augu við það að hann verði hugsanlega aldrei alveg eins og hann var. Við verðum að mínu mati að finna fleiri leiðir til að auka útflutningstekjur okkar, nýjar leiðir sem byggja ekki, alla vega ekki einungis á þeim sem fyrir voru, svo sem sjávarútvegi, landbúnaði, álframleiðslu eða stóriðju og ferðaþjónustu. Tækifærin þar, ljósið í myrkrinu, finnast í nýsköpun og framþróun, stuðningi við það sem við vitum ekki fyrir fram hvað er. Vel á minnst, það er einmitt svolítið vandinn við að styðja við nýsköpun og vísindi almennt, við vitum ekki fyrir fram hvað við fáum. Það er vandamál sem ég held að allar vísindastofnanir og þekkingarframleiðslustofnanir kljást við, að reyna að sannfæra fjárfesta eða yfirvöld eða jafnvel viðskiptavini um hvað það er sem verður til fyrir peninginn. Og svarið er: Við erum bara ekki alveg viss, við vitum ekki alveg hvað það er, kemur í ljós seinna. Kannski ekkert. Það kemur fyrir líka.

Mig langar að nefna a.m.k. tvennt í því samhengi sem ég veit að hvort tveggja hefur tilhneigingu til að hækka augabrúnirnar á fólki vegna þess að það er kannski ekki vant að hugsa eða tala um það í samhengi við Ísland. Annað er borgaralaun sem ég ætla að fara aðeins í á eftir, en hitt er fyrirbæri sem ég vil alls ekki að fólk taki þannig að ég sé að leggja fram hér sem einhverja lausn á vandanum. Það er bara þannig að þegar enginn talar um eitthvað þá er ágætt að einn tali smá um það. Það eru geimvísindi. Nú hvá eflaust margir sem hlusta og hugsa með sér, já, gat skeð að Píratinn vildi fara út í geim. En það er nú þannig, og ég hvet hlustendur til að fletta því upp, að það er stórkostleg gróska í geimvísindum í dag. Tæknin sem við njótum í hinu daglega lífi er að ofboðslega stórum hluta komin þaðan. Það vill þannig til að geimvísindi snúast ekki bara um það að skjóta einhverju dóti út í geim heldur að nýta þekkinguna sem við fáum með þeim vísindum og allri þeirri tækni sem hana varðar, sem er meira eða minna öll vísindi.

Við á Íslandi erum afskaplega sterk í nokkrum atriðum og eitt af þeim er tækniþekking. Íslendingar eru bara þokkalega sterk þjóð þegar kemur að tækniþekkingu, sér í lagi á sviði hugbúnaðargerðar og gervigreindar. Gervigreind er ein af tæknigreinum sem umbylta heiminum á margvíslegan hátt og á fullt erindi. Ég nefni þetta fyrst ég er í pontu en ítreka aftur að þetta er ekki lausnin á vandanum. Þetta er bara eitt af því sem við tölum aldrei um hér á Íslandi og ég held að það sé af sömu ástæðu að ekki var heldur talað um það í Eistlandi eða á Möltu vegna þess að litlar, smáar og fámennar þjóðir, eins og Ísland, gefa sér oft að til þess að taka þátt í geimvísindum þurfi hún að vera stórþjóð. Ástæðan er kannski sú að við erum vön því að hugsa um Bandaríkin, Sovétríkin og kalda stríðið og tungllendingar og eitthvað því um líkt. En það er bara ekki raunveruleikinn lengur. Það er engin ástæða fyrir okkur að sniðganga geimvísindi frekar en eðlisfræði eða stærðfræði. Við eigum nákvæmlega sama erindi í það. Smæð þjóðarinnar kemur því máli bara ekki neitt við. Hægt er að taka þátt í verkefnum hjá stofnunum og alls konar fyrirtækjum, fjölmörgum reyndar. Einkabransinn hefur stækkað gríðarlega mikið í geimvísindum og er það kallað á ensku „newspace“ þ.e. nýgeimur, nýtt andrúmsloft, óttalegt tískuorð reyndar, en einkaframtakið er sem sé að hasla sér mjög ríkan völl. Þar leynast tækifærin. Það er í raun og veru í einkageiranum og í geimiðnaði þegar kemur að þeim skyldu vísindum.

En nú ætla ég ekki að eyða allri ræðu minni eða þolinmæði áheyrenda í þetta, það verða vonandi frekari tækifæri til að ræða þetta allt saman. Ég vil bara ljúka þessu með því að segja að geimvísindin varða ekki bara geiminn, þau varða fyrst og fremst jörðina og varða hluti eins og sjávarútveg og landbúnað. Það eru geimvísindi sem hjálpa okkur að nýta jörðina betur, að vita hvar skal sá o.s.frv. Og það eru geimvísindi sem munu leiða okkur áfram í því að bregðast við áhrifum loftslagsbreytinga á hafið og breytingum á fiskstofnum og þess háttar. Þetta snýst ekki bara um einhverja drauma í skýjunum þótt þeir séu vissulega mikilvægir líka. Þetta snýst um jörðina, þetta snýst um raunveruleg störf á landinu, á jörðinni.

Síðast en ekki síst vil ég nefna borgaralaun. Ég ítreka aftur, ég legg þá hugmynd ekki fram sem einhverja lausn á vandanum sem við stöndum frammi fyrir núna. En við að kynna mér þetta frumvarp tek ég eftir því sem er skiljanlegt og ekki hægt að mótmæla í sjálfu sér að það byggir allt á því að bregðast við að laga einhvern skaða á því kerfi sem við erum með til að byrja með, draga úr neikvæðum áhrifum hér, auka jákvæð áhrif þar o.s.frv.

Borgaralaun er hugmynd sem ég hef verið mjög tortrygginn á í gegnum tíðina, og er í raun enn. Hún er ekki þannig að hægt sé að skella borgaralaunum á sisvona og þá reddist allt. Til að kynna hana fyrir áheyrendum sem ekki hafa heyrt um hana áður felur hún í sér þá frekar róttæku pælingu að greiða fólki einfaldlega út peninga, mánaðarlega, fyrir það eitt að vera til. Engar skerðingar, það eru engin skilyrði, einfaldlega peningar í vasann í hverjum mánuði. Af einhverjum ástæðum hafa hörðustu vinstri menn og hörðustu hægri menn kunnað vel við þessa hugmynd, en eiginlega allir þar á milli eru mjög tortryggnir gagnvart henni, eins og gefur að skilja vegna þess að hún er róttæk. Hún er mjög skrýtin, hún er svolítið á ská við það sem við erum vön að tala um í hagfræði af góðri ástæðu. Upp á síðkastið hef ég hins vegar, þrátt fyrir mikla tortryggni mína, hallast meira að því að fyrr eða síðar, sennilega síðar, þurfum við að fara að hugsa í hagkerfi sem byggir á því að það sé eitthvert ákveðið gólf sem enginn fer undir, sama hversu lítið viðkomandi vinnur, sama hversu lítið viðkomandi framleiðir. Spurningin í mínum huga, stóra fræðilega spurningin er ekki hvort þetta sé raunhæft heldur hvernig þetta væri hægt og hverjar væru fórnirnar.

Það er langtímahugsjón sem ég ítreka aftur, ég legg hana ekki til hér og nú, ég tel hana t.d. ekki raunhæfa í formi frumvarps í dag, en ég held að við endum þar á einhverjum tímapunkti, alveg eins og á sínum tíma gat fólk ekki ímyndað sér að hafa gjaldeyri sem ekki grundvallaðist á því að hægt væri að skipta honum út fyrir eitthvað, eins og gull. Það virkar ágætlega að hafa gjaldeyri án þess að hafa gull, það virkar öðruvísi, en ekkert mikið öðruvísi eins og maður myndi kannski halda. Ég hygg að það sé það sama um borgaralaun. En ég ætla að láta það bíða seinni tíma að ræða það nánar. Ég hef nú þegar eytt meiri tíma í þessi tilteknu atriði en ég ætlaði mér, virðulegi forseti, og biðst afsökunar á því.

Þá vil ég að lokum taka undir fyrirvara hv. þm. Smára McCarthys sem hann setur fram í nefndarálitinu um að hægt væri að styðja meira við nýsköpun í frumvarpinu. Ég ber alveg virðingu fyrir því að 35% sem lögð eru til í nefndarálitinu er afrakstur einhvers konar málamiðlunar, því að einhvers staðar þarf þetta að lenda. Ég skil það, ég ber alveg virðingu fyrir því. En ég held að í nýsköpuninni liggi fræin sem við munum verða fegin eftir 20 ár að hafa sáð núna í mjög ríkum mæli. Að sjálfsögðu dreg ég ekki úr mikilvægi þess að stunda það neyðarstarf sem núna þarf til að hjálpa fólki í dag. Það er lykilatriði því að fólkið í dag verður flest, vonandi, líka fólk á morgun. Það er eðli nýsköpunar að framtíðin er óljós. Ef við ætlum að byggja brú eða leggja veg getum við sagt um það bil hvað við fáum mörg störf, fyrir hversu mikinn pening og hvað við erum að fá fyrir peninginn. Í nýsköpun er það yfirleitt ekki tilfellið. Við vitum ekki alveg hvað mun virka. Við þekkjum ekki framtíðina. Það vekur auðvitað ákveðinn ótta, eða fælni kannski, þegar kemur að því að leggja þurfi peninga í fyrirbærið nýsköpun, og sérstaklega þegar neyðin er mikil vill fólk vita hvað það er að gera. Það vill vita fyrir fram hvað það fær fyrir peninginn og að hvaða leyti það muni hjálpa. Vissan verður svo verðmæt þegar óvissan er mikil, eins og í þessum aðstæðum. Þetta er alveg skiljanlegt viðhorf. Það er ekki við neinu öðru að búast af manneskjum eða skynsömum yfirvöldum ef út í það er farið, og þess heldur finnst mér mikilvægt að við höldum því til haga að velmegunin sem við höfum vanist í dag varð til vegna þess að fólk tók áhættur, veðjaði á eitthvað sem það vissi ekki hvað yrði. Í kjölfarið gengum við á tunglinu.