150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[20:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hugsanlega hef ég talað óvarlega eða orðað hlutina óskýrt, það má vel vera, því að ég hélt ekki að ég hefði sagt, og ætla að vona að ég hafi ekki gert það, að það mætti alls ekki hækka skatta. Það sem ég vildi koma að er að ég tel að í sambandi við það markmið að halda jafnvægi í tekju- og útgjaldastreymi ríkissjóðs þegar fram líða stundir sé best að beita skattalækkunum en markmiðið er miklu margþættara og miklu flóknara en það. Ég var að reyna að beita ákveðinni rörsýn á tiltekinn þátt. Hvað varðar hins vegar skattlagningu almennt, til að reyna að bæta upp fyrir þennan hugsanlega misskilning ef ég hef talað óvarlega, hef ég ekkert á móti því að skattleggja tekjur og sér í lagi háar tekjur. Ég er mjög hlynntur því og þekki engar aðrar góðar leiðir til þess að afla tekna fyrir ríkissjóð. Ég hef oft reynt að láta mig dreyma um einhverjar en ekki fundið neina aðra lausn en þá. Sömuleiðis þegar við hugsum um hluti eins og borgaralaun, sem er draumórakennd heimssýn akkúrat núna, þá sé ég enga aðra leið en að við sammælumst um að það sé ákveðinn botn sem við ættum ekki að fara undir og ætlum ekki neinum að lifa undir, sama hvað hann vinnur lítið og gerir lítið og þrátt fyrir að við teljum hann ómögulegan eða ekki eða hvaðeina. Að sama skapi held ég að það hljóti að vera ákveðið þak einhvers staðar. Þegar ég heyri af vitfirrtum fjárhæðum, eins og þegar fólk á eignir upp á tugi milljarða bandaríkjadollara, virðulegi forseti, finnst mér það bara skrýtið.

Ég held að það sé fullt svigrúm til að breyta í grundvallaratriðum hvernig við hugsum um skattkerfið og tilgang þess og viðhalda ákveðnum mannsæmandi botni í hagkerfinu. (Forseti hringir.) Ég er aftur komin út í langtímahugsanir þannig að ég er ekki með einhverjar útfærslur á hreinu. En ég er alla vega ekki (Forseti hringir.) þeirrar skoðunar að það megi alls ekki hækka skatta. Ég er bara að segja að þegar kemur að þessu tiltekna markmiði sem ég nefndi (Forseti hringir.) þá eigum við að líta á skattalækkanir í þessum aðstæðum sem hluta af lausnum okkar við því vandamáli.