150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[20:26]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Okkur hv. þingmann greinir nokkuð á ef það eru hugmyndir hans um að það megi alls ekki hækka skatta, en við skulum kannski eiga þá umræðu inni fyrir betri tíma og lengri umræðu.

Það sem mig langaði að spyrja hv. þingmann um í seinna andsvari mínu voru akkúrat borgaralaun. Umræða um borgaralaun á Íslandi hefur verið nokkuð lítil og grunn. Á sama tíma hefur hún þróast í alls konar spennandi áttir og þá er ég að tala um að hún hefur þróast í ansi óvæntar áttir í Evrópu, í þeim löndum þar sem hugmyndirnar um borgaralaun voru hvað háværastar fyrir nokkrum árum síðan. Menn hafa í raun horfið frá hugmyndinni um flöt borgaralaun fyrir alla yfir í það að hafa borgaralaun fyrir ákveðna hópa samfélagsins, til að mynda fyrir listamenn eða aðra ákveðna hópa samfélagsins. Flöt borgaralaun stangist á við þá sósíalísku hugmyndafræði okkar sósíalista að við verðum að tryggja velferð allra borgara og þá sér í lagi þeirra sem standa höllum fæti. Þar hafi ríkið alla vega tvö meginhlutverk, að tryggja velferð og öryggi borgaranna annars vegar og að stuðla að einhvers konar uppbyggingu atvinnu- og efnahagslífs hins vegar. En hugmyndir um borgaralaun hafa ekki fengið nógu mikla og þroskaða umræðu á Íslandi og því langar mig í seinna andsvari mínu að fá þetta fram hjá hv. þingmanni. Ég veit að við höfum lítinn tíma en af því að hann tæpti á hugmyndum sínum um borgaralaun í ræðu sinni myndi ég vilja fá fram hjá honum aðeins ítarlegri hugmyndir um borgaralaun og hvernig hann gæti séð þau fyrir sér í því ástandi sem blasir við okkur núna, af því hann er að tengja þetta saman.