150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[20:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi í ræðu minni hef ég sjálfur verið mjög tortrygginn gagnvart hugmyndinni um borgaralaun hingað til. Ég hef verið hlynntur því að skoða málið og athuga hvort þetta gæti einhvern tíma virkað en svo þegar þessi krísa kom upp og ég var að hlusta á umræðurnar fór ég að velta fyrir mér hvort samfélagið ætti ekki í grundvallaratriðum að geta staðist það að ýtt sé á pásu í efnahagnum af og til. Ætti samfélagið ekki að geta sætt sig við það að þótt sumt fólk geri ekkert og leggi ekkert til samfélagsins af einhverjum ástæðum, jafnvel bara af því að það nennir því ekki, þá eigi það samt að hafa þak yfir höfuðið og mat? Erum við ekki komin á þann stað og þá alveg óháð því hvort fólk vinnur eða ekki? Erum við ekki alveg nógu rík?

Þetta er svipað og ég hugsa stundum þegar kemur að vinnuréttindum og styttingu vinnuvikunnar. Nú höfum við haft vinnuskylduna átta tíma, sem hefur reyndar verið að breytast upp á síðkastið og allt í góðu með það. En á sínum tíma þegar það var ákveðið að við skyldum vinna átta tíma á dag voru það bara 24 tímar deilt með þremur. Sólarhringnum var deilt í þrjá búta og við áttum að vinna átta tíma á dag. Það var ekkert mat á því hvað þyrfti til að halda uppi viðunandi samfélagi, þetta voru bara 24 tímar deilt með þremur, átta tíma fékkstu til að sofa, átta tíma til að vinna og átta tíma til að leika þér. Síðan þá hafa orðið ótrúlegustu tækniframfarir í sögu mannkynsins, ótrúlegustu tækniframfarir sem vitað er að hafi orðið hjá nokkurri dýrategund, á nokkru plani, í nokkru sólkerfi og má vel vera að það sé einstakt í stjörnuþokunni okkar og þótt lengra væri leitað. Það segir sitt, virðulegi forseti. Verðmætasköpunin sem við erum orðin vön í dag og tökum sem sjálfsögðum hlut er svo gífurleg að við hljótum að geta leyft okkur einfaldlega meiri tíma til að gera það sem okkur sýnist.

Varðandi borgaralaun þá hef ég ekki útfærsluna, ég er ekki með hana enn þá og verð kannski aldrei með hana, það má vel vera. En ef ég lít á samfélagið sem við búum í og afleiðingar þess að sett sé pása á efnahagskerfið í smástund finnst mér það ekki alveg stemma við það sem við gætum gert. (Forseti hringir.) Ég verð að viðurkenna að ég er ekki með lausnirnar á þessu. Þetta eru bara hugmyndir sem mér finnst tímabært að ræða. Ef ekki verður byrjað að ræða þær verða lausnirnar aldrei fundnar.