150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 302/2019 um breytingu á V. viðauka og bókun 31 við EES-samninginn.

705. mál
[21:36]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 302/2019 frá 13. desember 2019 um breytingu á V. viðauka, um frelsi launþega til flutninga, og bókun 31, um samvinnu á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins, við EES-samninginn frá 2. maí 1992 og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2016/589 frá 13. apríl 2016 um vinnumiðlunarnet Evrópu, aðgang launafólks að þjónustu vegna hreyfanleika og frekari samþættingu vinnumarkaða, og breytingu á reglugerðum nr. 492/2011 og nr. 1296/2013. Auk þess er lagt til að sjö afleiddar gerðir, framkvæmdaákvarðanir framkvæmdastjórnarinnar, sem taldar eru upp í 2.–8. tölulið þingsályktunartillögunnar, verði felldar inn í samninginn.

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2016/589 er ný heildarreglugerð um EURES sem felur einnig í sér breytingar á reglugerðum nr. 492/2011 og nr. 1296/2013.

EURES er samstarfsverkefni um opinbera vinnumiðlun á EES-svæðinu, rekið af framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins. Markmiðið er að auðvelda vinnandi fólki að flytjast á milli EES-landa. Starfsfólk EURES kemur á sambandi milli atvinnurekenda og atvinnuleitenda. Ísland á aðild að verkefninu í gegnum EES-samninginn. Um er að ræða nýja reglugerð um EURES-vinnumiðlun og gagnagrunn með lausum störfum og atvinnuleitendum, sem rekin er á ESB-svæðinu. Reglugerðin fjallar um vinnumiðlunarnet Evrópu, aðgang launafólks að þjónustu vegna hreyfanleika og frekari samþættingu vinnumarkaða. Gerðin tekur til EURES-vinnumiðlunar sem rekin er á ESB-svæðinu og gagnagrunn með upplýsingum um laus störf og atvinnuleitendur. Innleiðing reglugerðarinnar kallar á lagabreytingar.

Framkvæmdaákvarðanir framkvæmdastjórnar, samanber 2.–8. töluliðar þingsályktunartillögunnar, eru afleiddar gerðir af fyrrnefndri reglugerð og kalla ekki á neinar lagabreytingar.

Innleiðing reglugerðar nr. 2016/589 á Íslandi kallar á breytingar á lögum nr. 105/2014, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins. Á grundvelli þeirra laga var reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 492/2011 frá 5. apríl 2011, um frjálsa för launafólks innan sambandsins, innleidd og birt sem fylgiskjal. Því mun þurfa að uppfæra það fylgiskjal með þeim breytingum sem reglugerð nr. 2016/589 mælir fyrir um. Að öðru leyti mun lagastoð reglugerðarinnar falla undir lög nr. 55/2006, um vinnumarkaðsaðgerðir, og er yfirstandandi vinna í félagsmálaráðuneytinu við að skoða hvort ákvæði reglugerðarinnar kalli á efnislegar breytingar á þeim lögum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að aflokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.