150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 165/2019 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

706. mál
[21:40]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 165/2019 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2015/2366 frá 25. nóvember 2015 um greiðsluþjónustu á innri markaðnum.

Tilskipunin felur í sér nýjan heildarramma um greiðsluþjónustu sem tekur við af reglum tilskipunar 2007/64/EB um greiðsluþjónustu á innri markaðnum. Nýju tilskipuninni er m.a. ætlað að greiða fyrir nýsköpun á sviði greiðsluþjónustu, svo sem með net- og farsímagreiðslum, efla samkeppni á markaði greiðsluþjónustu og tryggja betur öryggi neytenda.

Tilskipunin verður innleidd með nýjum heildarlögum um greiðsluþjónustu sem fella lög nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu, úr gildi. Í kjölfar gildistöku nýrra laga um greiðsluþjónustu mun Seðlabanki Íslands setja reglur til nánari útfærslu, sem innleiða munu afleiddar gerðir greiðsluþjónustutilskipunarinnar.

Ég legg til, virðulegur forseti, að að aflokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.