150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

utanríkisþjónusta Íslands.

716. mál
[22:07]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir gott innlegg. Ég lít svo á að við séum að taka umræðu um þessi mál til að velta hlutunum fyrir okkur og meta hvort megi bæta eitthvað eða hvort menn fari fram með eitthvað sem ekki er skynsamlegt. Mér finnst gott að hv. þingmaður komi með málefnalegt innlegg og láti skoðanir sínar í ljós, enda hefur hv. þingmaður mikla reynslu af þessum málum, eins og við vitum öll. Ég tek ekki undir að þetta þýði að það verði losarabragur á þessu. Ég held að þetta myndi setja hlutina í skýrara form. Ég held að það sé gott fyrir alla.

Ég hafði svo sem heyrt það á öðrum vettvangi innan þjónustunnar og finnst frekar augljóst, að þegar það eru rúmlega 200 diplómatar, getum við sagt, færanlegir starfsmenn, og 40 sendiherrar þá er það svolítið mikið. Þegar einu sinni er búið að skipa sendiherra, eins og fyrirkomulagið er núna, þá verður viðkomandi sendiherra áfram. Ég held að við myndum ekki vilja sjá 100, 200 sendiherra, ég held að við séum sammála um það. En maður getur alltaf sagt að maður geti fengið viðkomandi aðila í einhver verkefni. Ég held að það sé ekki góð uppbygging á þjónustunni og fer betur yfir það í ræðu á eftir.

Ég vil þó segja að hv. þingmaður er ekki sá eini sem komið hefur með gagnrýni á að það væri óskynsamlegt að hafa þannig fyrirkomulag að ef viðkomandi aðili sem er skipaður til fimm ára stendur sig vel megi ekki skipa hann áfram. Það sjónarmið hefur heyrst og ég held að hv. nefnd ætti að fara yfir það eins og aðra þætti þessa máls.