150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

utanríkisþjónusta Íslands.

716. mál
[22:12]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé ekki hvernig almennar auglýsingar koma í veg fyrir að ráðherra geti valið hæfasta umsækjandann í starfið. Ef ég ætti að færa rök fyrir því af hverju mér finnst mikilvægt að auglýsa embætti sendiherra er það vegna þess að lengi hafa verið grunsemdir um að þessi embætti hafi verið notuð í pólitískum hrossakaupum. Það að auglýsa þær stöður er þá til þess fallið að auka traust á því hvernig staðið er að þeim ráðningum.

Mín helsta röksemdafærsla fyrir þessu er að eyða tortryggni hvað það varðar hvernig skipað er í svona stöður. Almennt ráðningarferli felur í sér að ríkinu ber skylda til að ráða hæfasta einstaklinginn í starfið og það er þá hvort heldur sem er einhver utanaðkomandi eða einstaklingur innan ráðuneytisins. Ef allir hafa jafnt tækifæri til að sækja um, það er náttúrlega líka það, hafa allir, jafnvel frambærilegasta fólk sem ráðherra var bara ekki kunnugt um á þeim tíma sem ákveðið var að skipa í sendiherrastöður, tækifæri til að sækja um. Þá er þeim alla vega gert kunnugt um að þessi staða sé í boði, sem er ekki alltaf raunin.