150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

utanríkisþjónusta Íslands.

716. mál
[22:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það kann að vera að það þurfi að finna leið þarna, einhverja millileið, við skulum ekkert útiloka það. Mig langar svolítið að velta þessu upp: Slík staða er auglýst og um hana keppa tveir aðilar. Annar er kannski búinn að vera 15 ár í utanríkisþjónustunni og hinn hefur aldrei komið nálægt neinu slíku, er kannski með rétta menntun og þess háttar. Ef hakað er í boxin er sá sem kemur utan að með betri niðurstöðu en er kannski algerlega reynslulaus úr því starfi sem hann á að taka við. Er hann þá hæfari en sá sem hefur kannski minni menntun á einhverju sviði eða eitthvað slíkt? Við þurfum í það minnsta að íhuga vel þetta valferli, hvaða kröfur eru gerðar, myndi ég segja. En ef hægt er að sýna mér fram á að hægt sé að tryggja þetta með einhverjum hætti myndi ég segja að við þyrftum að skoða það. En mér finnst það fyrirkomulag sem er í dag ekkert slæmt varðandi starfsfólkið. Það má hins vegar velta því upp hvort gera eigi viðvart um að þetta standi til þannig að menn geti gefið kost á sér með einhverjum hætti eða eitthvað slíkt, við skulum ekkert útiloka það. Það á a.m.k. ekki að hvíla nein leynd yfir þessu, ég er alveg sammála því.