150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

utanríkisþjónusta Íslands.

716. mál
[22:15]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að lýsa ánægju minni með að nú standi til að setja almenna skyldu á hendur ráðherra að auglýsa störf sendiherra og endurkomu þess skilyrðis. Við höfum löngum vænst þess og okkur finnst ánægjulegt að þetta sé á leiðinni, vonandi, í lög núna, verði þetta frumvarp að lögum. Það er í meginatriðum vegna þess, a.m.k. að mínu mati, að það er ákveðinn freistnivandi gagnvart skipunarvaldi ráðherra um að beita svo mikilvægum og góðum virðingarstöðum í einhvers konar pólitískum hrossakaupum og af pólitískri greiðasemi. Það vekur óþarfatortryggni gagnvart utanríkisþjónustunni, óþarfaleiðindum og óþægindum, finnst mér, vegna þess að auðvitað eiga þessi störf að vera aðgengileg öllum til umsóknar. Það á ekki að vera einhverjum vafa undirorpið hvaða sjónarmið liggja að baki skipun ráðherra í jafn mikilvægar stöður og raun ber vitni. Þetta eru fulltrúar okkar á erlendri grundu. Þeir gegna gríðarlega mikilvægu starfi og af þeim sökum finnst mér mjög mikilvægt að mjög vel sé vandað til verka þegar skipað er eða ráðið í þessi störf.

Virðulegi forseti. Ég ræddi við hæstv. ráðherra áðan um tímabundnar skipanir sem eru undanskildar auglýsingaskyldu. Mig langar að ræða aðeins uppleggið í því. Ég er svo sem ekki að lýsa því yfir hér og nú að ég sé á móti þessari undanþágu. Ég heyrði það á svörum hæstv. ráðherra að það gætu verið málefnalegar ástæður fyrir því að fara þessa leið. En mér finnst samt kristallast í rökstuðningnum við þessa grein það sem þótt hefur vera ókosturinn við slíkar skipanir, þ.e. að heimilt sé að víkja frá framangreindri reglu um að auglýsa til að skipa fólk með reynslu úr stjórnmálum eða atvinnulífinu í allt að fimm ár í senn. Það er í sjálfu sér skiljanlegt sjónarmið. En að sama skapi er einmitt það að skipa fólk sem sendiherra sem gert hefur garðinn frægan í stjórnmálum, það sem vakið hefur tortryggni í kringum skipan sendiherra vegna þess að stöður eru ekki auglýstar og ekki liggur fyrir hvaða sjónarmið liggja að baki eða hvort einhver pólitísk hrossakaup hafi komið viðkomandi aðila í embætti, en ekki það að viðkomandi sé hæfasti maðurinn í starfið. Mér finnst það umhugsunarvert og mér finnst að hv. utanríkismálanefnd eigi að fara vel og rækilega yfir þetta, hvort kannski sé hægt að innleiða einhver frekari gagnsæissjónarmið í kringum þá skipan, hvort því fylgi einhvers konar rökstuðningur eða eitthvað annað til þess að efla traust á þessum mikilvægu embættum.

En að öðru leyti tel ég að frumvarpið til verulegra bóta og fagna því að það sé hér fram komið.