150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[22:30]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér ræðum við frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra um breytingu á lögum um útlendinga. Það verður að segjast eins og er og af einlægri hreinskilni að það vekur eiginlega með mér hryggð og depurð að hæstv. dómsmálaráðherra leggi þetta frumvarp fram, frumvarp sem er nánast óbreytt frá frumvarpi tveggja fyrrverandi dómsmálaráðherra, hv. þm. Sigríðar Á. Andersen, og hæstv. núverandi ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur.

Og hvert er svo hið brýna erindi með þessu frumvarpi að það er lagt nánast óbreytt fram af hálfu hæstv. dómsmálaráðherra í þriðja sinn? Ekki er það að festa í sessi breytingar á lögum um útlendinga með það að meginmarkmiði að styrkja réttindi barna á flótta eða tryggja að fjölskyldusameiningar verði framkvæmdar af raunverulegri og meiri mannúð og mannskilningi, eða að hér sé boðað af hálfu hæstv. dómsmálaráðherra að afnema til að mynda aldursgreiningar á tönnum og beinum barna og unglinga á flótta. Eða er jafnvel um að ræða tilkynningu frá hæstv. dómsmálaráðherra um að Ísland ætli sér að taka á móti fleiri fylgdarlausum börnum á flótta sem viðbragð stjórnvalda við Covid-19? Nei. Hér er lagt fram frumvarp sem hefur það m.a. að leiðarljósi að festa enn frekar í sessi Dyflinnarreglugerðina, eins og segir í greinargerð frumvarpsins orðrétt, með leyfi forseta:

„Frumvarpið mælir því fyrir um að Dyflinnarreglugerðinni skuli beitt þegar kostur er og að ákvarðanir Útlendingastofnunar í þessum málum sæti sjálfkrafa kæru til kærunefndar útlendingamála. Þá þykir tilefni til að hverfa frá þeirri framkvæmd að umsóknir einstaklinga sem þegar hafi hlotið alþjóðlega vernd séu teknar til efnislegrar meðferðar á grundvelli undantekninga 2. mgr. 36. gr. um sérstök tengsl og sérstakar ástæður.“

Hér er sem sé verið að festa í sessi þá valkvæðu reglugerð sem við höfum haft, að endursenda fólk sem fengið hefur stöðu sem hælisleitendur í öðrum löndum en sér ekki fram á að lífsskilyrði þess batni í viðkomandi ríkjum, að lífsskilyrðum þess sé jafnvel ógnað í þeim löndum og leitar því ásjár okkar hér á landi.

Hér erum við líka að gera endursendingar ákveðinna hópa sem til okkar leita eftir alþjóðlegri vernd nánast sjálfvirka. Það er ekki gott, síður en svo. Með frumvarpinu er nefnilega verið að koma í veg fyrir jaðarmálin svokölluðu, sem nú eru tekin til efnismeðferðar, fái efnismeðferð. Ef hingað kemur t.d. fjölskylda með vernd í Grikklandi, barn með alvarlegan hjartagalla, er ekki heimilt samkvæmt þessu frumvarpi að taka slík mál til efnismeðferðar, jafnvel þó að fjölskylda sem til okkar leitar með verndarstöðu sé með barn sem þarfnast læknisaðstoðar, ef kona er ólétt og nánast komin að fæðingu eða ef börn eru í viðkvæmri stöðu og hafa fest rætur í íslensku skólakerfi.

Eina viðleitnin til breytingar í þessu máli frá fyrri málum fyrrverandi dómsmálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins er að kæra frestar réttaráhrifum. Herra forseti. Það er bara ekki nógu mikil breyting frá fyrri málum til að sú sem hér stendur geti stutt þetta mál, enda er heimildin til að taka mál til efnismeðferðar svo að segja ekki til staðar með þessu. Sem varaformanni flóttamannanefndar Evrópuráðsþingsins finnst mér sérstaklega dapurlegt að verða vitni að því að íslensk stjórnvöld séu á tímum Covid-19 að reyna að leita allra leiða til að synja fólki um umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi og snúa því hreinlega til baka. Hér er verið að leita leiða til að synja umsókn um alþjóðlega vernd hraðar, leita leiða til að festa í sessi með lögum aðferðir til að geta vísað fólki burt. Eins og að festa í lög reglugerð nr. 775/2017, sem sett var til að auka skilvirkni í bersýnilega tilhæfulausum umsóknum og til að færa þau í sérstaka málsmeðferð, forgangsmeðferð á bersýnilega tilhæfulausum umsóknum, sem stytta átti málsmeðferðartímann. Það á að færa hér í lög því að reglugerðin þar um var ekki talin hafa fullnægjandi lagastoð. Hér er leitað leiða til að flýta málsmeðferð í þeim tilgangi að það taki minni tíma að vísa fólki á brott.

Þetta frumvarp mun gera það að verkum, verði það að lögum, að stjórnvöld geta vísað fólki aftur til Grikklands og Ungverjalands og Búlgaríu, sem öll hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir slæman aðbúnað fyrir flóttafólk sem þangað leita, jafnvel flóttafólks sem hlotið hefur stöðu þar sem hælisleitendur. Þessi lönd hafa því miður ekki staðið undir þeim alþjóðlegu skyldum sem þeim ber að sinna gagnvart fólki í viðkvæmri stöðu í samfélögunum sem um ræðir.

Herra forseti. Frumvarpið sem við ræðum hér er sorglegt viðbragð íslenskra stjórnvalda við ákalli Evrópuráðsins og fleiri mannréttindastofnana á tímum Covid-19 faraldursins, ákalli sem snýst um að aðildarríkin taki við því flóttafólki sem komið hefur til Grikklands og jafnvel hlotið þar stöðu flóttafólks. Reynslan og dæmin sýna að Grikkland hefur engan veginn getað staðið við þær skuldbindingar sem því ber að bjóða fólki á flótta upp á mannúðlegar aðstæður. Það höfum við margsinnis séð í ályktunum alþjóðastofnana um ástandið í Grikklandi, á eyjunni Lesbos og víðar. Grísk stjórnvöld hafa nefnilega staðið frammi fyrir fordæmalausum áskorunum varðandi fólksflutninga flóttafólks. Skömmu áður en Covid-faraldurinn reið yfir Evrópu fóru þúsundir einstaklinga yfir austurhluta landamæra Grikklands og Tyrklands á ólögmætan og skipulagðan hátt eftir að tyrknesk stjórnvöld vísuðu flóttafólki á að fara yfir landamærin. Það jók álagið á Grikkland, sem staðið hefur frammi miklum áskorunum varðandi móttöku flóttafólks í hartnær áratug. Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá grískum stjórnvöldum búa yfir 80.000 farandverkamenn og flóttafólk í Grikklandi og er rúmlega helmingur þeirra staðsettur á eyjunum í austurhluta Eyjahafs.

Í ljósi alvarleika stöðunnar óskuðu grísk stjórnvöld eftir því að önnur ríki Evrópu tækju við einhverjum af þeim fjölda barna á flótta sem eru í Grikklandi. Þó nokkur evrópsk ríki svöruðu því ákalli. Þýsk stjórnvöld tóku á móti 1.000–1.500 flóttabörnum frá Grikklandi sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Þá hafa finnsk, frönsk og portúgölsk stjórnvöld gripið til svipaðra aðgerða. Eins hefur Evrópusambandið tilkynnt að viðbótarfjármagn verði veitt frá sambandinu til Grikklands í því skyni að aðstoða grísk stjórnvöld við að takast á við þessa þungu stöðu. Það var fyrir Covid-19 faraldurinn. Grísk stjórnvöld sendu sjálf neyðarkall því að ljóst var fyrir Covid-19 að aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttafólks þar í landi væri ekki hægt að tryggja. Þau sendu sjálf út neyðarkall vegna þess að þau voru búin að sjá að þau gætu ekki staðið við lágmarkskröfur um aðbúnað sem þeim bæri að veita fólki á flótta.

Og hver eru viðbrögðin hjá ríkisstjórn Íslands við því ákalli? Ekki að taka á móti fleiri fylgdarlausum börnum á flótta sem stödd er í flóttamannabúðum, eða einstæðum foreldrum á flótta með börn, líkt og Finnland hefur gert, heldur þetta frumvarp. Hægt er með góðu móti að staðhæfa að það sé þvert gegn vilja almennings á Íslandi sem birst hefur með ýmsum hætti. Almenningur á Íslandi hefur nefnilega sýnt vilja sinn til að sýna meiri mannúð en nú er gert hér á landi í verki þegar kemur að móttöku fólks á flótta; með undirskriftum þúsunda manna og með mótmælum fyrir utan þinghúsið og ráðuneyti dómsmála. Þetta hefur almenningur á Íslandi nefnilega gert þegar honum er misboðið þegar kemur að ákvörðunum er lúta að því að taka á móti fólki á flótta.

Af hverju er ekki hlustað á þann vilja almennings að sýna meiri raunverulega mannúð og veita fólki í viðkvæmri stöðu enn meiri vernd og stuðning? Að hér sé lögð fram skýr stefna um hverju við ætlum að fylgja þegar kemur að móttöku fólks sem til okkar leitar eftir alþjóðlegri vernd. Einstæðum mæðrum og feðrum með börn á framfæri sem búin eru að flýja óboðlegar aðstæður með börn sín hingað til okkar, fólk sem glímir við veikindi, fötlun eða andlega, langvarandi streitu.

Ég minni á að það er sérstaklega mikilvægt að tryggja aðstæður barna, sem íslenskum stjórnvöldum ber raunar skylda til samkvæmt alþjóðlegum samningum og sáttmálum að tryggja. En því miður höfum við séð dæmi um að það hefur ekki verið raunin. Ákall almennings á Íslandi, sem við höfum svo oft séð og upplifað undanfarið, er að sýna meiri mannúð gagnvart fólki á flótta.

Og já, mér er tíðrætt um Grikkland og stöðuna þar, en þetta frumvarp verður líka til þess að opnað verður fyrir endursendingar flóttafólks til Ungverjalands og Búlgaríu, ríkja sem hafa margsinnis fengið á sig alvarlegar kærur og athugasemdir alþjóðlegra stofnana vegna meðferðar þeirra á flóttafólki. Þær kærur og athugasemdir hafa m.a. orðið til þess hingað til að Ísland hefur ekki viljað senda þangað fólk síðastliðin tvö ár a.m.k. sem hingað hefur leitað eftir vernd þrátt fyrir að viðkomandi hafi hlotið þar formlega stöðu hælisleitenda. En með þessu frumvarpi á að breyta því eða alla vega opna verulega fyrir möguleikann á því.

Herra forseti. Nú ríður á að við sýnum samstöðu hvert með öðru, ekki að herða skrúfurnar eða gera reglurnar stífari til að tryggja að við getum vísað fólki á braut sem hraðast sem til okkar leitar undan afleiðingum stríðsátaka eða hvers kyns hörmunga eða undan lífsskilyrðum sem eru á engan hátt mannúðleg. Ef það er eitthvað sem við eigum að læra af Covid-19 er það að alþjóðleg samvinna og mannúðlegur samtakamáttur er ekki aðeins nauðsynlegur fyrir samfélög til að þrífast, dafna og mæta áföllum, heldur beinlínis lífsnauðsynlegur. Við skulum opna faðminn, iðka meiri mannúð og manngæsku, líka gagnvart þeim sem leita hingað til okkar undan hörmungum stríðs og stríðsátaka. Þess vegna hefði verið svo tilvalið, einboðið að leggja fram frumvarp eða þingsályktunartillögu eða tillögu um að taka á móti fleirum, taka á móti fleirum sem eru í viðkvæmri stöðu, létta byrðir hjá öðrum Evrópuríkjum sem hafa þurft að taka á sig miklu meiri og þyngri mál þegar kemur að málefnum flóttamanna en Ísland hefur nokkurn tímann þurft að standa frammi fyrir. Þegar kemur að því að sýna samstöðu í verki hefði hér verið tilvalið tækifæri til þess.

Í nýlegum sjónvarpsþætti Kveiks var fjallað um aðstæður flóttafólks sem vísað hefur verið frá Íslandi til Grikklands. Í lok þess áhrifamikla þáttar var spurt: Hvaða stefnu ætlum við eiginlega að iðka hér á landi? Hvernig ætlum við að hafa þetta? Það er spurning sem við höfum spurt ansi oft hér í þingsal og það er spurning sem almenningur hefur líka spurt ansi oft undanfarna mánuði og ár. Hér hefur verið starfandi nefnd um endurskoðun á útlendingalögum sem varla hefur fundað og varla hefur verið starfhæf vegna þess að það er enginn skýr vilji eða stefna eða sýn þegar kemur að málefnum fólks á flótta eða útlendinga.

Það er kominn tími til þess að við stöldrum við, myndum okkur mannúðlega stefnu og sýn, fylgjum henni í verki og sýnum samstöðu á alþjóðavettvangi með þeim sem eru í allra viðkvæmustu stöðunni.