150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[22:48]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. 42. gr. er auðvitað oft beitt, enda á hún við um alla þá umsækjendur sem fá efnismeðferð. Hv. þingmaður vísaði líka í þingmannanefndina um endurskoðun, síðasta nefnd hafði þann titil að endurskoða lögin. Sú nefnd sem nú er skipuð hefur ekki þá skilgreiningu heldur á að skoða einstaka málaflokka eða einstaka mál sem koma upp, þau gætu verið breytingar á útlendingalögunum og ég hef fullt tilefni til þess að geta nýtt hana varðandi t.d. þá skýrslu sem verið er að vinna í ráðuneytinu um málefni barna í heild í alþjóðlega verndarkerfinu.

Hv. þingmaður kemur aftur inn á fylgdarlaus börn og þar held ég að sé mikilvægast að við gerum vel og séum tilbúin í það stóra verkefni að taka vel á móti fylgdarlausum börnum áður en við lofum mun meiru en við ráðum við og það er það sem verið er að undirbúa, skoða og greina og þar er samstarf við félagsmálaráðuneytið algjört lykilatriði.

Það má auðvitað benda líka á það að Ísland er að gera margt varðandi stöðuna í Grikklandi. Við erum að styrkja hæliskerfið þar með fjárframlögum í gegnum uppbyggingarsjóð EES. Við erum ekki að endursenda á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, eins og ég hef margoft sagt. Við höfum verið að taka yfir verndarmál frá Grikklandi og svo má auðvitað skoða þær aðgerðir sem við höfum farið í vegna Covid sem snerta 225 einstaklinga í Dyflinnar- og verndarmálum sem fá þá efnismeðferð hér á landi. Meðal þeirra eru um 90 með vernd í Grikklandi og þar af 40 með börn. Ég myndi segja að við séum að gera mjög vel og ef við miðum okkur við önnur lönd erum við að fá bæði fleiri umsóknir miðað við stærð en líka að taka á móti fleirum og veita hér alþjóðlega vernd.