150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[22:55]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir andsvarið. Já, ég hnaut líka um þessar kostnaðarsetningar í greinargerð frumvarpsins. Nei, til að svara spurningunni strax, þá var það ekki tilgangurinn með skýrslubeiðni minni um úttekt á starfsemi Útlendingastofnunar að sú úttekt myndi leiða það af sér að vísa á brott fleirum. Það var sannarlega ekki tilgangurinn með þeirri úttekt heldur einmitt til að sjá hvað mætti betrumbæta í starfi Útlendingastofnunar. Ef við veltum fyrir okkur þeim tíma sem líður frá því að fólk kemur hingað og þangað til afgreiðslu er lokið þá skil ég það að vissu leyti að yfirvöld vilji stytta þann tíma, þann óvissutíma sem fólk býr við. En um leið vekur það líka hjá manni þá hugsun að verið sé að stytta tímann hjá fólki að festa rætur í íslensku samfélagi, að börn festi rætur í íslensku skólakerfi og þar með sé erfiðara um vik að snúa því á brott frá Íslandi. Viljinn á bak við þetta sé ekki að liðka til og draga úr kostnaði ríkissjóðs heldur einmitt að koma í veg fyrir að fólk festi samfélagslega rætur og myndi tengsl sem gera erfiðara um vik að snúa því frá landi brott.