150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[22:57]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst svolítið illa farið með vinnu Ríkisendurskoðunar hér og hún notuð til réttlætingar á voðaverkum að mínu mati. En ég vildi einmitt tala um það sem hv. þingmaður vísaði réttilega til, sem er þessi tilvísun í skilvirkni. Nú ætla ég að láta tölvuna mína telja hversu oft er minnst á skilvirkni í frumvarpinu en ég tel að það sé mjög oft og töluvert oftar en minnst er á hugtökin mannúð, samkennd, samstaða, samvinna, ábyrgð. Ég þori að veðja að orðið skilvirkni sé bara mikill sigurvegari í því hvað dómsmálaráðuneytinu liggur mest á hjarta þegar kemur að málefnum flóttamanna, það er skilvirknin. Skilvirknin er ákveðið gervihugtak sem notað er fyrir færibandavinnuna sem hér stendur til að koma á til að koma fólki úr landi. Það stendur til að koma í veg fyrir að fólk sem fengið hefur vernd í öðru ríki eins og Grikklandi, hv. þingmaður fór mjög vel yfir stöðuna þar, fá hér vernd. Það sé hægt að vísa því beinustu leið til baka. Við hv. þingmaður vitum báðar að það er verið að afnema möguleika Útlendingastofnunar sem og kærunefndar útlendingamála til að taka þessi mál sem við höfum séð vera hvað mest áberandi í fjölmiðlum undanfarið til efnismeðferðar. Það er bara verið að fjarlægja úr lögum getu þeirra til að bregðast við ákalli almennings. Ég er ekki frá því að tilgangurinn með frumvarpinu sé að tryggja að það myndist ekki, einmitt eins og hv. þingmaður vísaði í, tími fyrir þetta fólk til að segja sögu sína og óska eftir vernd frá samfélaginu Íslandi, vegna þess að ekki er dómsmálaráðuneytið viljugt til að vernda það. Það kemur skýrt fram. Ég vil athuga hvort hv. þingmaður (Forseti hringir.) sé ekki sammála mér um að hæstv. dómsmálaráðherra finnist greinilega að fólk sem hefur fengið vernd í Grikklandi eigi ekki skilið að fá vernd á Íslandi.