150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[22:59]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi seinni hluta spurningar hv. þingmanns um hvað hæstv. dómsmálaráðherra finnst varðandi endursendingar þá held ég að það fari bara best á því að spyrja hæstv. ráðherra beint um það. En varðandi skilvirknina á kostnað mannúðarinnar þá heyrist mér að við hv. þingmaður séum hjartanlega sammála um að það megi aldrei vera á kostnað mannúðar þegar kemur að málefnum útlendinga og flóttafólks. Við getum ekki búið til kerfi sem á eingöngu að vera skilvirkt og ganga hratt og vel og örugglega fyrir sig á kostnað mannúðar. En þetta er stefnumótandi ákvörðun sem þarf að taka. Þetta er pólitísk ákvörðun sem þarf að taka, hvaða leiðarljós við ætlum að hafa sem okkar sýn þegar kemur að móttöku fólks í viðkvæmustu stöðunni sem leitar hingað til okkar eftir alþjóðlegri vernd, eftir því að öðlast hér líf án stríðs, stríðsátaka, lífi í öruggu samfélagi, rólegu samfélagi, friðsamlegu samfélagi. Það er sannarlega pólitísk ákvörðun að leggja áherslu á mannúð og mannskilning, umhyggju og vernd frekar en skilvirkni og hraða málsmeðferð.

Að því sögðu þá hef ég ákveðinn skilning á því, eins og ég kom inn á í fyrra andsvari, að forðast það að halda fólki í algjörri óvissu of lengi. Það er í raun og veru að mínu viti eina ástæða þess að skilvirkni hafi eitthvað með þessi mál að gera, að stytta þennan biðtíma fólks eftir ákvörðun um örlög þeirra. En ég held að við hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir séum hjartanlega sammála (Forseti hringir.) um mannúðina og hvar hún eigi að vera í forgangi en ekki skilvirkni.