150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[23:17]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér gefst kannski ekki tími til að koma inn á mjög margt. Mig langar fyrst að nefna að viðtöl eru ávallt tekin af börnum nema foreldrar neiti því eða vilji ekki að börnin sín taki þátt í viðtali. Það er auðvitað umræða sem hægt er að taka en það hefur verið tekin sú umræða að stefna ekki börnum gegn foreldrum sínum í slíkri málsmeðferð. Mig langaði bara að nefna þetta af því að komið var inn á það.

Þegar hv. þingmaður segir að það sem varðar sérstakar ástæður hafi komið inn í lögin með þingmannanefndinni þá er það rangt. Það var í lögum, 2. mgr. 46. gr. útlendingalaga, nr. 96/2002, og kom inn 2010 en ekki með sameiginlegri þingmannanefnd þannig að það er ekki rétt að það hafi komið sérstaklega inn þá. Árið 2010, þegar þetta kemur inn, eru aðeins 35 umsækjendur um alþjóðlega vernd sem leita verndar á Íslandi og ekki höfðum við séð áður þær aðstæður að fólk hefði fengið áður vernd í öðru Evrópuríki og að hingað leitaði fjöldi slíkra aðila. (Forseti hringir.) Mig langaði rétt að nefna þessa atriði, gæti auðvitað komið inn á fjölmörg önnur.