150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[23:19]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, eitthvað rámar mig í það úr svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn minni um viðtöl við börn sem sækja hér um hæli að viðtöl séu ekki tekin við þau nema foreldrar leyfi. Þá langar mig kannski að spyrja: Hvaða önnur mannréttindi leyfa íslensk stjórnvöld foreldrum að ráða að gildi um börnin og hver ekki? Barnasáttmálinn gildir fyrir öll börn, óháð skoðun foreldra þeirra um það hvort barnasáttmálinn gildi um þau. Það er einfaldlega þannig að barnasáttmálinn segir að hlusta skuli eftir skoðunum barns í öllum málefnum sem varða hagsmuni þess verulega. Ef veiting hælis varðar hagsmuni barnsins ekki sérstaklega og verulega, hvað gerir það þá?

Ég hef greinilega tekið feil á ártölum. Ráðherra segir (Forseti hringir.) að sérstakar ástæður hafi komið inn 2010 og ástandið hafi ekki verið eins og það er í dag. Það hefur nú verið eitt Sýrlandsstríð í millitíðinni og búið að standa allan þann tíma. Eigum við ekki að hjálpa fólkinu þaðan?