150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[23:22]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hagsmunir barna, segja þeir sem gæta hagsmuna hælisleitenda, eru yfirleitt metnir eftir að afstaða hefur verið tekin í máli foreldra þeirra í hæliskerfinu. Þess vegna þarf ekki að ræða mikið við börnin, vegna þess að hagsmunir barns eru í grunninn þeir að vera með fjölskyldu sinni. Ef íslensk stjórnvöld eru búin að ákveða að foreldrarnir séu best geymdir í öðru landi þá eiginlega leiðir af sjálfu sér af þeirri slæmu ákvörðun að barnið þarf að fylgja þeim. Þetta er umræða sem ráðherrann segist vera tilbúin í og ég vona að hún verði tekin með opnari hug en í samráðinu sem er útlistað í greinargerð þar sem ábendingum Flóttamannastofnunar og Rauða krossins var að mestu leyti ýtt til hliðar.