150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[23:26]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir vonir hv. þingmanns um að í þinglegri meðferð verði a.m.k. hlustað. Hér er verið að tala um að veikja rétt flóttamanna til endurupptöku. Því er einhvern veginn sópað af borðinu. Það er verið að setja aukna sönnunarbyrði á flóttamenn sem eiga að fá verri málsmeðferð en allir aðrir.

Svo langar mig aðallega að tala um annað ákvæði, vegna þess að ég tek undir með hv. þingmanni að þótt við séum að fókusera á 11. gr. og áhrifin sem hún hefur á 36. gr. þá eru mörg önnur ákvæði í þessu frumvarpi sem ber að varast verulega. Þar af er það ákvæði þar sem til stendur að fjarlægja 15 daga umhugsunarfrest umsækjenda um alþjóðlega vernd áður en þeir geta kært ákvörðun Útlendingastofnunar eða sem sagt þann tíma sem þeir hafa til að ákveða hvort þeir vilji kæra ákvörðun Útlendingastofnunar. Rauði krossinn hefur bent á að þessi tími er oft notaður til að vega upp á móti (Forseti hringir.) því að Útlendingastofnun sinnir ekki rannsóknarskyldu sinni og leyfir umsækjendum ekki (Forseti hringir.) að sanna að þeir tilheyri t.d. sérstaklega viðkvæmum hópi. En í þessari greinargerð (Forseti hringir.) er talað um að tekið hafi verið mið af athugasemdum Rauða krossins. Ég veit ekki um hvað (Forseti hringir.) er verið að tala.