150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[23:30]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Frú forseti. Markmið laga um útlendinga eru mannúð og skilvirkni. Þessi markmið hafa aldrei náð að vera almennilega í jafnvægi. Það hefur alltaf verið togstreita á milli þeirra. Greinin sem hv. þingmaður vitnaði í er eitt dæmi um það en dæmin eru mýmörg í þessu máli. Það er það hættulega við það. Það þarf að lúslesa það til að finna öll þessi dæmi þar sem skilvirknin vinnur á kostnað mannúðarinnar.

Það sem ég hef áhyggjur af er að þetta frumvarp sé eitt stærsta skrefið í átt að því að straumlínulaga eitthvert sjálfvirkt endursendingarkerfi á hælisleitendum. Þá er mannúðin bara farin. Þá eru þetta ekkert annað en lög um skilvirka afgreiðslu útlendinga án mannúðar.