150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[23:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er minn skilningur einnig og mín tilfinning fyrir þessum málaflokki almennt, alveg frá því að ég steig fyrst á þing og reyndar lengur. Þetta er nefnilega ekkert nýtt og mig skortir eiginlega orðin til að lýsa því nákvæmlega. Mér finnst í raun og veru undirförult að leggja fram svona grein, sem er eins og hv. þingmaður nefnir bara eitt dæmi, þar sem verið er að auka skilvirknina einhvern veginn til hagsbóta fyrir umsækjendur. Það að ríkið spari pening hjálpi einhvern veginn umsækjendunum. Ég velti fyrir mér hversu lengi fólk myndi umbera þessa röksemdafærslu árum saman, aftur og aftur, í frumvörpum sem fælu það í sér, gagnvart dómskerfinu eða einhverju slíku, að vera alltaf að auka réttindi fólks með því að fikta í tímasetningum og þess háttar, alltaf með þeim orðum að það sé verið að vernda réttindi fólks þegar það er bersýnilega verið að taka réttindi frá þeim. Virðulegur forseti. (Forseti hringir.) Ég er búinn með tímann.

(Forseti (BHar): Já, hv. þingmaður var búinn með tímann. Hann er skammur þegar aðeins er um eina mínútu að ræða.)