150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[23:34]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni kærlega fyrir framsögu hans sem var mjög skýr og greinargóð. Hv. þingmaður átti sæti í þverpólitískri þingmannanefnd um útlendingamál og lét m.a. hafa eftir sér í júlí 2019 að endurskoða þyrfti verklag við brottvísanir hælisleitenda til Grikklands og að nefndin sem átti að sinna eftirliti, m.a. eftirliti með framkvæmd útlendingalaga, hefði verið bitlaus. Mig langar að heyra hver ástæðan var að mati hv. þingmanns fyrir þessu bitleysi þingmannanefndarinnar. Var um að ræða pólitík, var það samsetning nefndarinnar, stefnuleysi eða hver var í raun og veru ástæðan fyrir þessum orðum hv. þingmanns?