150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[23:40]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Útlendingamál eru mjög vaxandi í allri pólitískri umræðu. Þau eru mjög vaxandi í allri umræðu í samfélaginu öllu og útlendingamálin eru stórpólitískt efni í samfélagi þjóðanna; fólk á flótta og fólk í leit að vernd. Hér í þessu frumvarpi eru tveir efnisflokkar til umræðu sem eru mátulega skyldir, annars vegar er fjallað um alþjóðlega vernd og brottvísanir og hins vegar um atvinnuréttindi útlendinga. Frumvarpið virðist manni að mestu óbreytt frá fyrra frumvarpi sem lagt var fram í fyrra hvað varðar alþjóðlegu verndina og brottvísanir. Það hefur tekið einhverjum breytingum, eins og fram hefur komið, en meginstefið er það sama. Útlendingapólitíkin sem liggur að baki frumvarpinu er hin sama. Pólitíkin er hin sama og þegar frumvarpið var fyrst lagt fram af tveimur fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins.

Þegar greinargerðin með frumvarpinu er lesin má sjá að rauði þráðurinn er að styrkja stoð Dyflinnarreglugerðarinnar. Fram kemur að lagt er til að stoð reglugerðarinnar verði styrkt. Annað markmið er að málsmeðferð umsókna verði einfölduð. Markmiðið samkvæmt þessu tungutaki er að auka skilvirkni, þ.e. að stytta málsmeðferðartíma við þær aðstæður þegar umsækjandi hefur hlotið alþjóðlega vernd í öðru ríki. Stefið sem við sjáum aftur og aftur í þessari greinargerð, og er rauði þráðurinn, er: aukin skilvirkni, styttri málsmeðferðartími og sterkari stoð Dyflinnarreglugerðarinnar.

Það er stundum áhugavert þegar maður er að rýna lagasetningu að skoða greinargerðina. Greinargerð með frumvarpi er oft eins og spegill á lagasetningu, sýnir hvað lagasetningin er í raun, hvernig lögin líta út og hvað þau þýða. Greinargerðin segir söguna og markmiðið að baki lögunum og markmiðið með lögunum. Þegar við lesum þessa greinargerð og spyrjum okkur að því hvað átt sé við með einfaldari málsmeðferð, hvað skilvirkari málsmeðferð þýði gagnvart þeim sem hafa hlotið vernd í öðru ríki, sjáum við svörin. Það er í því ljósi sem frumvarpið vekur upp spurningar og ég verð að viðurkenna að það vekur líka töluverðar áhyggjur.

Við erum meðvituð um að það eru tugir milljóna manna á flótta í heiminum í dag. Við erum meðvituð um þennan veruleika. Samt eru það alltaf sögurnar af einstaklingunum sem rata í fjölmiðlana sem snerta okkur mest. Það er nú kannski þannig með allt í lífinu að tölurnar segja okkur minna en sögur af fólki. Fréttaflutningurinn hefur verið af sorglegum sögum fólks, fullorðinna og barna, sem sækja skjól á Íslandi og af ákvörðunum Útlendingastofnunar. Fókusinn hefur verið þar, á það hvað Útlendingastofnun er að gera, en ábyrgðin er auðvitað stjórnvalda. Stofnanir framfylgja lögum og stefnu stjórnvalda. Þar á fókusinn að vera.

Þegar greinargerðin er lesin um einfaldari málsmeðferð og skilvirkari gagnvart fólki sem þegar hefur hlotið alþjóðlega vernd þá vaknar sú spurning hvort hér sé verið að boða frekara framhald á sögum eins og við þekkjum því miður úr fjölmiðlum, t.d. sögunni af sýrlenskri konunni sem vann í leikskólanum Vinagarði og var vísað til Grikklands vegna þess að þar hafði hún áður hlotið alþjóðlega vernd. Grikkland er talið öruggt ríki fyrir flóttamenn. Ég tók þessa sögu dálítið til mín vegna þess að þennan leikskóla þekki ég, í hann hafa dætur mínar gengið og þess vegna er þetta saga sem er mér greypt í minni. Í frétt á mbl.is kom fram að konan vann í leikskólanum í rúmlega hálft ár, að sögn Maríu Sighvatsdóttir, aðstoðarleikskólastjóra, sem sagði hana hafa náð vel til barnanna. Mér finnst skipta máli að ramma inn þessar litlu sögur því þær eru þrátt fyrir allt stóra samhengið. Með leyfi forseta, þá sagði aðstoðarleikskólastjóri í þessu viðtali:

„Hún hefur ofboðslega góða nærveru, er áhugasöm og lagði sig mikið fram við að kynnast starfinu. Það var gott að vinna með henni, ég lærði mjög margt af henni. Hún kenndi börnunum og lærði svo af okkur og þeim líka. Þannig að allir græddu á vinnu hennar hér. Hennar er virkilega sárt saknað.“

Ekki var ástæðan sú að fækka þyrfti starfsfólki. Það vantar fólk í marga leikskóla í Reykjavík, eins og við foreldrar þar þekkjum. Sjálf vildi hún helst halda áfram að vinna með börnunum, var mikils metin af starfsfólki og börnunum og foreldrum þeirra. Hennar saga er sú að hún kemur úr aðstæðum sem við þekkjum hverjar eru í Sýrlandi en kemur ekki beinustu leið til Íslands. Það markar alla hennar málsmeðferð. Þetta er ekki saga úr fortíðinni og þessar sögur sem við sjáum því miður nokkuð reglulega í fjölmiðlum eru ekki sögur úr fortíðinni. Þær eru að gerast á þessu ári og gerðust í fyrra, þessi saga er frá 2019. Það hefur auðvitað gerst í málum sem þessum að það er umræðan sem verður til þess að vekja athygli á aðstæðum. Auðvitað er alltaf hættulegt að umræðan kveiki eitthvert bál en það rammar samt inn hver staðan er; það er umræðan sem vekur athygli á aðstæðunum, sögum fólks og reynslu. Það hefur gerst í kjölfar umræðunnar að frestir hafa verið veittir, niðurstöðum breytt. Það hafa verið gerðir breytingar á regluverki og fólk jafnvel fengið að vera hérna áfram, bara vegna þess að tilviljanakenndar sögur komast í kastljós fjölmiðlanna.

Nú stendur í greinargerð með frumvarpinu að Dyflinnarreglugerðinni skuli beita þegar þess er nokkur kostur. Það er mælt fyrir um breytingar sem ætlað er að styrkja stoðir reglugerðarinnar og áréttað — og þetta sést aftur og aftur þegar greinargerðin er rýnd — að beita henni þegar þess er nokkur kostur. Ég spyr þess vegna: Getur verið að frumvarpið sé að boða það að vísa fólki úr landi, jafnvel að senda aftur til þeirra landa sem hér hafa verið nefnd í kvöld, Ungverjalands og Búlgaríu og Grikklands, í enn meiri mæli en áður, einungis vegna þess að vernd hefur þegar verið veitt þar? Við vitum að fólk hefur verið sent þangað og, eins og ég sagði áðan, tilheyrir það ekki í neinni fortíð.

Þess vegna spyr ég og held að við ættum að spyrja okkur að því við meðferð þessa máls, af því að alltaf þarf að skoða frumvarp í samhengi við greinargerð: Hvað erum við að segja? Hvað felst í þeirri nálgun að auka skilvirkni? Ég get ekki séð, þegar ég les greinargerðina, að verið sé að tala um aðrar réttarbætur en þær að allt ferlið gangi hraðar fyrir sig. Ég átta mig ekki fyllilega á orðum hæstv. dómsmálaráðherra áðan um að ekkert breytist í reynd með þessu. Ég skil greinargerðina á annan hátt. Ég upplifi að rauði þráðurinn í greinargerðinni með frumvarpinu sé að málsmeðferðin sé skýr, hún sé gagnsæ og mér sýnist að það geti vel orðið niðurstaðan verði frumvarpið að lögum. En mér sýnist að pólitíkin að baki frumvarpinu sé líka skýr og gagnsæ.

Umfjöllun allsherjar- og menntamálanefndar mun væntanlega skýra þennan þátt málsins betur þannig að ástæðurnar að baki og markmiðið verði nokkuð ljósara. Mér fannst jákvætt að heyra það hjá dómsmálaráðherra áðan hver hugur hennar er t.d. varðandi börn sem hingað koma. En ég set stórt spurningarmerki við tungutakið í greinargerðinni og hvaða verkfærakista er í henni um hvert eigi að fara, verði frumvarpið að lögum. Það er einfaldlega þannig að svona frumvarp speglar stefnu. Þetta er pólitík, þetta er pólitísk stefna gagnvart fólki sem sækir hingað alþjóðlega vernd.

Mér finnst að þegar við ræðum frumvarp eins og þetta þurfi líka að vera hægt að stíga skref til baka. Þetta er kannski ekki eitthvað sem lögfræðingur ætti að segja, það þarf að skoða greinarnar og skoða greinargerðina. En við þurfum líka að staldra við og spyrja: Hver er stóra myndin hér? Hvaða pólitík erum við að tala fyrir? Hvaða hugmyndafræði erum við að tala fyrir? Hvert ætlar hlutverk Íslands að vera gagnvart þeim vanda sem blasir við heiminum öllum? Hver er okkar ábyrgð? Hver er stefna okkar gagnvart því fólki sem hingað sækir, fólkinu sem þetta frumvarp fjallar um? Þar myndi ég vilja sjá dálítið aðra stefnu, dálítið aðra hugmyndafræði og hún má vera skýr og gagnsæ. Ég vil bara að pólitíkin sé önnur en þessi.

Ég vonast til þess að umræðan um þetta mál svari þeirri spurningu hver pólitík ríkisstjórnarinnar í málefnum útlendinga raunverulega er og verður og bind vonir við að umræðan í þessum sal og í allsherjar- og menntamálanefnd verði til þess að þetta mál taki einhverjum breytingum.