150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

¡útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[23:51]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Kerfið sem við erum með í dag er fyrir fólk. Það er fyrir fólk sem er í leit að vernd. Hlutfallið sem kerfið fær í dag af þeim fjármunum sem dómsmálaráðuneytið fær er um 4 milljarðar og hefur hækkað úr 220 milljónum á síðustu tíu árum eða svo. Það eru góðir fjármunir. En hvaða árangri er það að skila okkur? Við gátum vissulega veitt yfir 500 manns alþjóðlega vernd í fyrra. Það er okkar saga. Þar erum við að gera vel miðað við lönd í kringum okkur og það sýnir hvaða árangri við erum að ná í heild. En er það ásættanlegur árangur að fólk þurfi að bíða eftir jákvæðu svari í t.d. 230 daga? Er það árangur sem við sættum okkur við? Hverjar eru lausnirnar? Hvernig myndi hv. þingmaður horfa á kerfið í heild, ef hann bæri ábyrgð á kerfinu í heild, og hefði til þess þetta fjármagn? Með því fjármagni náum við þessum efnismeðferðartíma miðað við þann fjölda umsókna sem við erum með á hverjum tíma og á hverju ári nú um stundir.

Ég myndi segja að það væru gríðarleg tækifæri í því að fólki frá Grikklandi yrði beint til félagsmálayfirvalda vegna atvinnuleyfa. Sér hv. þingmaður tækifæri í því? Fólk með grísk flóttamannaskilríki gæti t.d. fengið dvalarleyfi á grundvelli þeirra en þyrfti ekki að koma inn í alþjóðlega verndarkerfið okkar og gæti því komið hér og fengið atvinnu eða önnur tækifæri.

Síðan er spurt um skilvirkni. Hvað þýðir það? Það þýðir að fólk sem sækir um vernd og er í þörf fyrir vernd fái fyrr svar og nái fyrr að aðlagast íslensku samfélagi. Það er það sem það þýðir. Það þýðir líka að afgreiða forgangsmál fyrr svo að við getum eytt tíma og fjármagni til að gefa þeim svar sem við veitum vernd, eins og þeim 531 einstaklingi (Forseti hringir.) sem fékk vernd 2019.

Þá má nefna, af því að hv. þingmaður kom inn á Dyflinnarreglugerðina, að öll önnur Evrópuríki beita henni mjög mikið (Forseti hringir.) og vissulega er enn þá rauði þráðurinn í sameiginlega evrópska hæliskerfinu að eitt ríki beri ábyrgð á máli þótt við tökum (Forseti hringir.) sérstakrar aðstæður til greina eins og í Grikklandi, Ungverjalandi. — Afsakið, frú forseti.

(Forseti (BHar): Forseti minnir hv. þingmenn og hæstv. ráðherra á tímamörkin, sem eru í þessari umferð þó 2 mínútur.)