150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[23:53]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra svarið. Það hvarflar ekki að mér að halda því fram að staðan hér sé einföld eða verkefnið einfalt eða að lausnin sé einföld. Ég er einfaldlega að vekja athygli á því að það er ekki hægt að lesa þessa greinargerð án þess að staldra við tungutakið því að öll skilvirknin miðar í eina átt. Ég fagna því hins vegar að dómsmálaráðherra stígi skrefið til baka og sé að ræða breiðu línurnar og áherslurnar þar. Ég held að ég geti sagt það úr mínu fyrra starfi að málsmeðferðartími hjá stofnunum ríkisins er gegnumgangandi vandamál, en það leiðir ekki til þess að við neitum að taka mál til meðferðar eða að við ákveðum að fækka verkefnunum. Verkfærin til þess eru önnur.

Svo verð ég að segja að í öllu þessu tali um vernd, alþjóðlega vernd, og hvenær verndin stendur til boða og hvenær verndin býðst á Íslandi, verður niðurstaðan alltaf samkvæmt þessu frumvarpi að sá hópur mun minnka til muna. Það er ekki hægt að skilja greinargerðina öðruvísi. Það er umhugsunarvert hversu rýrt hugtakið vernd verður, hversu fáir njóta hennar og hvernig við ætlum að fara í gegnum það að vinsa úr þeim hópi sem hingað sækir. Við þekkjum öll sögur af fólki sem hingað kemur og er að leita sér aðstoðar. Það er ekki fólk sem fellur augljóslega ekki undir það að njóta verndar.