150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[23:56]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Það er einskær von mín að hægt sé að ræða um málaflokkinn í einhverri heild því að það verður að horfa á allar hliðar hans til að átta sig á því hvernig við ráðum við umfangið. Við höfum mætt hér verkefni, góðu verkefni, þar sem við viljum gera vel, en það hefur stækkað ótrúlega mikið á örfáum árum og stjórnsýslan okkar ræður illa við. Hvernig viljum við þá ráðast í verkefnið? Hvernig getum við gert betur? Hvernig náum við árangri í þessum málaflokki? Að svara fólki fyrr finnst mér vera árangur, að gefa því vissu og vera ekki lengi í óvissu, hvort sem svarið er neikvætt eða jákvætt. Það finnst mér einn mælikvarði, að þurfa ekki að bíða hér í marga mánuði eftir svari. Það er sú forgangsröðun sem við erum að skoða.

Hv. þingmaður segir að tækifærin minnki til muna. Það er þannig að flestir aðilar sem eru með vernd fá neikvæða niðurstöðu í dag í kerfinu okkar. Það tekur bara tíma, tekur marga daga og tilgangurinn er að reyna að flýta þeirri meðferð. Það er rangt að fáir njóti kerfisins okkar. Það er bara rangt miðað við stöðuna í dag.

Ég fagna því ef við getum rætt frumvarpið í heild og mér heyrist að hv. þingmaður nálgist umræðuna þannig og nálgist verkefnið þannig. Ég held að við náum engum árangri ef þetta á bara að vera svart eða hvítt: Hver er góður, hver er vondur, hver ætlar að loka öllu, hver ætlar að hleypa öllum inn? Við erum með ákveðið kerfi, stórt kerfi, með alls konar leyfum þar sem alls konar fólk kemur inn og við náum engum árangri nema við náum að tala um það í heild hvernig við getum veitt þeim vernd sem þurfa verulega á því að halda, hvernig við getum beint fólki annað þar sem það getur öðlast önnur tækifæri hérlendis. Ég held að þar séu gríðarleg tækifæri. Ég fagna því að hv. þingmaður sé tilbúinn að ræða þau mál með þeim hætti eins og hann gaf hér í skyn.