150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[23:58]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, hún var prýðisgóð. En mig langar að spyrja hana aðeins út í einn þátt vegna þess að ég veit að hv. þingmaður er lögfræðingur, lögfræðimenntuð. Það er atriði sem Rauði krossinn bendir á í umsögn sinni við frumvarpið, að víðs vegar í frumvarpinu er verið að veikja málsmeðferðarréttindi flóttamanna sem ættu að vera tryggð samkvæmt stjórnsýslulögum, og vísar þar m.a. í Pál Hreinsson og fleiri heimildir sem víkja að því að stjórnsýslulögin séu ákveðin lágmarksréttindi og að stjórnvöld geti ekki sett reglur sem séu veikari og leggi veikari skyldur á stjórnsýsluna en finna má í stjórnsýslurétti nema mjög veigamiklar ástæður liggi þar að baki.

Ég þekki eitt málefnasvið ágætlega þar sem stjórnsýslulög eru svo gott sem sett út af sakramentinu og það er þegar kemur að nauðungarvistunarmálum. Mér finnst það ekki nógu góð réttlæting þar að taka stjórnsýslulögin úr sambandi. En gott og vel. Það má alla vega taka góða umræðu um hvort það sé réttlætanlegt þar eða ekki. En að taka endurupptökubeiðnisrétt af flóttamönnum, að auka sönnunarbyrði þeirra á sama tíma og verið er að draga úr getu þeirra til að færa sönnur á mál sitt með miklu styttri málsmeðferðartíma eru allt atriði sem Rauði krossinn bendir á í umsögn sinni og bendir á að það gangi gegn meginreglu stjórnsýsluréttar um að stjórnsýslulögin séu lágmarksréttindi og að ekki megi setja reglur sem leggja veikari skyldur á herðar stjórnvalda. Ég vildi því spyrja hv. þingmann hvort hún deili ekki þessari sýn (Forseti hringir.) Rauða krossins, hvort hún sé ekki sammála honum um að þessi ákvæði ber að skoða sérstaklega í ljósi stjórnsýsluréttarins.