150. löggjafarþing — 99. fundur,  7. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[00:00]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Já, þetta er áhugavert sjónarmið sem hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir nefnir. En það var nú viljandi sem ég fór þá leið í ræðu minni að tala um breiðu línurnar. Það er einfaldlega þannig að margt í þessu frumvarpi vekur upp spurningar. Ég nefni sem dæmi að það þurfi að fylgja greinargerð með kæru. Þetta er víða ekki í praxís með kæru og getur auðveldlega orðið íþyngjandi.

Af því að hv. þingmaður spyr sérstaklega um stjórnsýslulögin þá tók ég eftir þessu líka í umsögn Rauða krossins, sem var að mínu viti bæði ítarleg og vel unnin, og hvað það varðar myndi ég einfaldlega segja að þetta sé eitt af allnokkrum áhyggjuefnum sem frumvarpið speglar í heild sinni og kemur alltaf á sama stað niður þegar greinargerðin með frumvarpinu er lesin og hvað hún segir okkur. Það er vissulega rétt, eins og hæstv. ráðherra nefndi, að mikilvægt er að fólk, sér í lagi í erfiðum aðstæðum, fái svörin sín hratt. En skilvirknin eins og hún speglast þarna í gegn slær mig eingöngu í aðra áttina, eins og ég sagði áðan, að svörin verði í auknum mæli nei, að skilvirknin snúist um það og verið sé að teikna upp kerfi með það að leiðarljósi fyrst og fremst að fækka þeim sem hingað geti komið.