150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

orð ráðherra um forsendur lífskjarasamninganna.

[10:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég spyr hv. þingmann bara: Hvar hefurðu verið? Átta menn sig ekki á því hvað er að gerast á Íslandi? Við erum að tapa á þessu ári, umfram það sem við héldum að yrði halli ársins, 250 milljörðum eða álíka, tvöfaldri fjárhæð sem við ætluðum til ársins 2033 að setja í höfuðborgarpakka. Þar þótti mönnum nóg að gert.

Hvar hafa menn verið sem koma hingað upp og spyrja: Hvaða breyttu forsendur er ráðherrann að tala um?

Ég veit ekki hvað ég get gert fólki til hjálpar sem skilur ekki hvað hefur breyst. Það sem ég sagði um lífskjarasamningana, sem hv. þingmaður heldur að ríkisstjórnin hafi skrifað undir og sé aðili að en er ekki, er að lífskjarasamningarnir voru gerðir með stuðningi stjórnvalda milli aðila vinnumarkaðarins. Það er ekki á verksviði stjórnvalda að segja þeim upp eins og hv. þingmaður spurði mig um. Þessir samningar voru gerðir á þeim forsendum sem menn höfðu þá um framvindu efnahagsmála. Það sem ég hef sagt um þetta mál er að við höfum, þrátt fyrir að þær forsendur hafi breyst í grundvallaratriðum fram á þennan dag, enn verið að gera samninga sem taka mið af þessu. Samningar sem ekki hafa tekist hafa haft það merki á sér, sem sagt viðræðurnar um þá samninga, að þar er farið fram á meira en lífskjarasamningarnir rúmuðu. Það er óraunhæft. Þeir sem ekki sjá það eru ekki að fylgjast með. Þeir sem ekki sjá að ekki er svigrúm til að ganga lengra en lífskjarasamningarnir í nýjum kjarasamningum eru einfaldlega ekki raunveruleikatengdir.

Við erum í varnarbaráttu, við erum að reyna að verja það sem var gert í lífskjarasamningunum og það stendur tæpt. Það stendur tæpt (Forseti hringir.) þegar 50.000 manns eru komin á atvinnuleysisskrá í millitíðinni, hv. þingmaður.