150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

orð ráðherra um forsendur lífskjarasamninganna.

[10:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kemur hingað og segir að við sýnum því engan skilning að við þurfum að verja velferðarkerfið okkar. Í hvað heldur hv. þingmaður að þessir 250, kannski 300, milljarðar í halla á ríkissjóði á þessu ári fari nema að borga opinberum starfsmönnum laun, styðja við almannatryggingakerfið okkar, félagslegu kerfin, standa með húsaleigubótum o.s.frv.? Í hvað heldur hv. þingmaður að þetta fari? Hann ætti kannski að kynna sér það hvernig útgjöld ríkisins skiptast. Við erum einmitt að forgangsraða í það að verja opinbera þjónustu, samneysluna, á þessum gríðarlega erfiðu tímum og við tökum lán fyrir þessu öllu saman. Við tökum lán fyrir því að verja opinberu þjónustuna. Þá kemur hv. þingmaður og segir að vegna þess að við viljum ekki gera kjarasamninga sem eru umfram forsendur lífskjarasamninga við einhverjar tilteknar stéttir séum við ekki að forgangsraða rétt. Þetta er algjör þvæla.

(Forseti (SJS): Forseti minnir hæstv. ráðherra á að vitna til hv. þingmanna með fullu nafni eða kjördæmisnúmeri.)