150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

forsendur fyrir ríkisstuðningi við fyrirtæki.

[10:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við erum með slík skilyrði. Slík skilyrði voru skrifuð vegna brúarlánanna inn í samning fjármálaráðuneytisins við Seðlabankann þar sem það er gert að skilyrði að þeir sem hyggjast sækjast eftir brúarlánunum hafi fulla og ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi. Sama skilyrði er að finna í frumvarpi sem nú er til meðferðar í efnahags- og viðskiptanefnd um stuðningslán. Þar er skrifað inn í lagagreinina, þ.e. frumvarpsgreinina, að full og ótakmörkuð skattskylda á Íslandi sé skilyrði fyrir því að slík lán séu veitt. Þetta tel ég vera alveg skýrt og taki til þess að þeir aðilar sem hafa skattskyldu í einhverju öðru landi falli ekki undir skilyrðið.