150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

forsendur fyrir ríkisstuðningi við fyrirtæki.

[10:42]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það er rangt hjá hæstv. ráðherra að það sé tryggt í frumvarpi ríkisstjórnarinnar að fyrirtæki í skattaskjólum fái ekki stuðning. Hvergi eru þau skilyrði sem girða fyrir að fyrirtæki sem notfæra sér skattaskjól eða eru með eignarhald á lágskattasvæði fái stuðning frá ríkinu. Sérfræðingar hafa bent á þetta. Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, hefur tjáð sig í fjölmiðlum og sagt að frumvarpið um stuðningslánin taki ekki á því með nokkrum hætti hvort fyrirtæki sem fái ríkisaðstoð notfæri sér skattaskjól eða séu með eignarhald í skattaskjóli. Í því frumvarpi er vísað í sömu skilyrði og hæstv. ráðherra talaði um áðan, þar er aðeins vísað í 1. og 2. gr. tekjuskattslaga sem engan veginn taka á þessum málum.

Fjármálaráðherra Frakklands hefur boðað að skilyrði Frakka eigi að ná til fyrirtækja með höfuðstöðvar eða dótturfélög í skattaskjólum. Danir hafa sett upp girðingar (Forseti hringir.) í þessu efnum. Fleiri lönd hafa gert slíkt hið sama en ef ég skil hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra rétt telur hann ekki ástæðu til að gera það hér á landi.