150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

verðbólguspár.

[10:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég veit eiginlega ekki alveg hvað ég get sagt við þessari fyrirspurn. Ég tel að Hagstofan sé að reikna verðbólguna mjög faglega og njóti stuðnings af alþjóðlega viðurkenndum aðferðum til þess. Við höfum reyndar ákveðið eftir samtal við vinnumarkaðinn að fá einn færasta sérfræðing í heiminum til að skoða sérstaklega samsetningu vísitölu neysluverðs. Ég vænti þess að niðurstöður hans verði aðgengilegar áður en langt um líður. Mér skilst að sú vinna sé langt komin. Þá getur hv. þingmaður, sem virðist vera mikill sérfræðingur á þessu sviði, kannski speglað sig eitthvað í niðurstöðum sérfræðingsins sem er alþjóðlega viðurkenndur aðili.

Hv. þingmaður hélt hér ræðu um að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar væri ekki rétt og eingöngu væri verið að vinna í þágu fyrirtækja en ekki nægilega vel í þágu öryrkja, unglinga og einhverra annarra sem greiða skatta. Ég ætla bara að biðja hv. þingmann um að hugleiða það aðeins hvers virði störfin eru sem hafa verið til staðar í landinu hjá fyrirtækjunum, þessi mögulega 30.000–40.000 störf sem eru að tapast núna í augnablikinu. Hvers virði eru þau fyrir getu okkar til þess að geta rekið hér þéttriðið velferðarkerfi? Kannski höfum við fengið núna í fyrsta skipti ótrúlegt skólabókardæmi upp í hendurnar sem maður gæti varla látið sér detta í hug í kennslustund. Við höfum séð það núna kristaltært hvað það þýðir að tapa þessum störfum. Það þýðir að við höfum ekki efni á almannatryggingum, ekki efni á skólakerfinu. Við höfum ekki efni á því að reka spítalana, borga þingmönnum laun eða öðrum opinberum starfsmönnum. Við þurfum að taka fyrir því lán. Það er ekki að furða þó að stjórnvöld leggi áherslu á það að endurheimta þessi störf, skapa ný, þannig að við getum staðið vörð um heilbrigðiskerfið og velferðarþjónustuna í landinu.