150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

verðbólguspár.

[10:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig rétt hjá hv. þingmanni að það er hægt að miða við vísitölu án húsnæðisliðar. Það er eitt af því sem við lýstum yfir í tengslum við gerð lífskjarasamninganna að við myndum koma fram með frumvarp þess efnis. Frumvarp með slíku ákvæði hefur legið inni í þingflokkum stjórnarflokka.

Ég held hins vegar að menn eigi dálítið að gæta sín á því að kalla eftir þeirri breytingu. Mjög sterkar vísbendingar eru uppi um að vísitala án húsnæðisliðar myndi þróast með óhagstæðari hætti en vísitala með húsnæðislið einmitt við þær aðstæður sem nú hafa skapast. Það yrði þá til tjóns fyrir heimilin sem við hv. þingmaður erum sammála um að þurfi að gæta að.