150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[11:17]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við í Samfylkingunni styðjum breytingartillögur meiri hlutans og erum aðilar að þeim tillögum en það sem okkur fannst skorta í þennan bandorm var að mæta heimilum sem hafa orðið fyrir miklu tekjufalli og ekki síst þeim sem hafa misst vinnuna. Það viljum við gera með því að hækka atvinnuleysisbæturnar og um það eru fyrstu liðirnir í þessari tillögu sem greidd verða atkvæði um á eftir.

En hér er einnig tillaga um að hækka framfærsluviðmiðið til barna þeirra sem eru atvinnulausir og þá tillögu kalla ég til 3. umr., m.a. fyrir áeggjan stjórnarmeirihlutans, þannig að vonandi fær sú tillaga jákvæða meðferð í efnahags- og viðskiptanefnd.

Að lokum verða greidd atkvæði sérstaklega um að námsmenn geti fengið atvinnuleysisbætur.