150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[11:21]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um það hvort hækka eigi grunnatvinnuleysisbætur upp að lágmarkslaunum á þessum fordæmalausu tímum en við greiðum einnig atkvæði um það hvort þeir 17.000 námsmenn sem nú búa við fullkomna óvissu um framfærslu sína á næstu vikum og mánuðum munu geta séð fyrir fjölskyldum sínum í sumar, munu geta greitt leiguna sína og framfleytt sér og börnum sínum. Það er átakanlegt að hlusta á hv. þingmann Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í pontu á þessum degi, þegar námsmenn eru að ljúka vorönn sinni, segja að það sé ótímabært að greiða atkvæði um að tryggja framfærslu þeirra sem eru í námi.

Það er líka ótrúlegt að fylgjast með ef Vinstrihreyfingin – grænt framboð ætlar í alvöru að fella þessar nauðsynlegu tillögur.