150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[11:27]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. 17.000 námsmenn munu ljúka vorönn á næstu dögum. Því miður finnst stjórnarþingmönnum ekki tímabært að huga að því hvernig þetta fólk á að fara að því að borga reikningana sína um næstu mánaðamót, hvernig það á að gefa börnunum sínum að borða í sumar. Námsmenn eru nefnilega alls konar. Námsmenn eiga líka fjölskyldur, námsmenn þurfa að borga leigu og námsmenn hafa ekki öll í djúpa vasa foreldra sinna að sækja.

Atvinnuleysisbótakerfið verður að tryggja líka námsmenn á svona tímapunktum. Við erum á fordæmalausum tímum. Námsmenn eru framtíðin okkar. Við viljum ekki að þetta fólk hrökklist úr námi á þessum tímapunkti. Þess vegna leggjum við í Samfylkingunni til og óskum stuðnings þingmanna við að námsmenn geti tímabundið í sumar fengið stuðning okkar (Forseti hringir.) eins og annað fólk.