150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[11:31]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Í breytingartillögum frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar, sem ég hygg að flestir þingmenn hér muni styðja, gerum við verulegar breytingar þegar kemur að endurgreiðslu vegna rannsókna og nýsköpunar. Ég held að það séu góðar breytingar en við erum líka að feta okkur í nýjar áttir hvað það varðar að skipta fyrirtækjum eftir stærð og hafa prósentuna þar af leiðandi breytilega eftir stærð fyrirtækja. Það eru tímabundnar aðgerðir og ég held að það sé rétt hjá okkur á þessum tímapunkti að hafa þær tímabundnar þó að ég aðhyllist almennt að þessi fyrirtæki þurfi að geta séð langt fram í tímann.

Við þurfum að vega og meta hvaða árangri við náum en ég útiloka alls ekki að það gæti verið góð ástæða að framlengja þessar aðgerðir síðar.