150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[11:33]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Við afgreiðslu bandormsins er verið að gera umtalsverðar breytingar á frumvarpinu, einkum er varðar styrki til rannsókna og þróunar og hækkun á endurgreiðslum vegna þess. Þar er töluvert mikið að gert. Það er umtalsverð hækkun og málið allt bætt til muna. Því er ekki tímabært að fara í enn frekari aðgerðir en þessar. Þetta er mjög mikilvægt skref sem við tökum núna og ég tel einnig að við munum á síðari stigum aðgerða vegna þessa faraldurs mögulega þurfa að taka afstöðu til þess hvort lengja þurfi í úrræðunum, eins og raunar kemur fram í þeirri breytingartillögu sem atkvæði verða greidd um á eftir.

Ég tel að á þessu stigi málsins sé það ekki tímabært enda vitum við ekki hversu langvinnur þessi faraldur verður eða afleiðingar hans.