150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[11:41]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég lýsi að sjálfsögðu yfir stuðningi við frumvarpið og þær breytingar sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd leggur til á málinu. Ég vildi þó geta þess að ég hef enn nokkrar áhyggjur af 9. gr. sem varðar fjölmiðla. Það á eftir að koma í ljós hvernig hún verður nákvæmlega útfærð. Nefndin gerir tillögu um aðeins nánari leiðarlýsingu fyrir hæstv. menntamálaráðherra en athugasemdir mínar lúta einkum að því að til þess að veita fjárheimildir af þessu tagi þurfi skýr fyrirmæli að koma í lögum um þær viðmiðanir sem eiga að vera til hliðsjónar og það þarf auðvitað að varast að hafa of rúmar heimildir til reglugerðarsetningar að þessu leyti þegar um er að ræða fjárheimildir úr ríkissjóði.

Það var eingöngu þetta sem ég vildi koma á framfæri, hæstv. forseti, en ég styð málið að öðru leyti.