150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[11:42]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég styð að sjálfsögðu þessar breytingar enda stend ég að þeim. Mig langar að nota tækifærið og þakka fyrir gott samstarf í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Ég hygg að flestir þingmenn muni jafnvel styðja þetta því að þingmenn úr öllum flokkum voru saman á nefndarálitinu. Við gerum ýmsar breytingar á þessu frumvarpi sem kemur í rauninni til út frá svokölluðum aðgerðapakka tvö hjá ríkisstjórninni. Mestur tími hjá nefndinni fór í að ræða áhrif á nýsköpun og rannsóknir og þróun og ég er mjög stolt af þeim breytingum. Við göngum jafnvel enn lengra en ríkisstjórnin hafði gert og boðað í sínum aðgerðapakka þegar kemur að endurgreiðslu vegna rannsókna og þróunar og skattafslætti vegna fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum.

Ég held að þetta sé mikilvægt. Þarna er viðspyrnan. Þarna er tækifærið. Þetta er það sem við þurfum að virkja á komandi árum, þ.e. hugvitið okkar sem við höfum endalaust af.