150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[11:43]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil nýta tækifærið til að nefna sérstaklega þátt nýsköpunar, rannsókna og þróunar í þessu frumvarpi. Ég tel að þetta sé alveg gríðarlega mikilvægt skref fyrir íslenskt efnahagslíf til framtíðar. Við byrjuðum í raun og veru á því að setja sérstök lög um nýsköpun eftir efnahagshrunið, fyrir áratug. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá en enn er töluvert ógert í starfsumhverfi nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi og ég tel að þær breytingar sem er verið að gera með þessu frumvarpi verði mjög mikilvægar til að styðja það starfsumhverfi til allrar framtíðar og ná því markmiði sem við þurfum að stefna að sem er að fjölga stoðunum undir íslensku efnahagslífi.

Að þessu sögðu held ég að þetta séu ásamt mörgum öðrum mikilvægum breytingum í frumvarpinu kannski mikilvægustu breytingarnar til lengri framtíðar og styð þessar breytingartillögur og frumvarpið að sjálfsögðu og segi já.