150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[11:45]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Það er margt gott í þessu frumvarpi en ég sit hjá. Ég greiddi atkvæði með fyrsta aðgerðapakkanum. Þá var meira óvissuástand og þurfti meiri samstöðu en ég nefndi samt nokkur atriði sem þyrfti að hafa til hliðsjónar þegar ríkið er annars vegar, í öllum aðgerðapökkunum og jafnframt þessu máli þegar ríkið er að taka ákvarðanir um að minnka skattheimtu, fella niður gjöld, í reynd að veita ívilnanir til fyrirtækja eða þeirra sem þurfa á að halda og svo útdeila fjármagni með brúarlánum eða slíku. Það þarf að hafa í huga að þessi fyrirtæki geti ekki greitt sér út arð, þau geti ekki vera að kaupa sín eigin hlutabréf og greiða sér út arð, að þau geti ekki hækkað laun forstjóra sinna, að það séu einhver takmörk á því að fyrirtæki geti átt eignir í skattaskjólum — allir þessir þættir sem fram hefur komið í umræðunni frá upphafi að almenningur muni ekki sætta sig við, þ.e. að þannig sé farið með ríkisfé að ekki sé girt það vel fyrir á Alþingi að ekki sé farið illa með ríkisfé þegar verið er að reyna að bregðast við efnahagsástandinu og ástandi heimilanna í þessu efnahagshruni. (Forseti hringir.) Það er ekki nógu vel gert þarna, það var gert svolítið og það var lagað í nefndinni. Nefndin má fá heiður fyrir það en samt er ekki nógu vel passað upp á þessa hluti.

Ég mun sitja hjá í málinu þangað til það verður gert.