150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

utanríkis- og alþjóðamál.

749. mál
[12:19]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Takk fyrir spurningarnar. Fyrst vil ég svara örstutt spurningunni sem var stór og við getum rætt betur, en við ræddum sérstaklega EES-málin. Ég held að við ættum að velja úr þessum samningum því að Evrópusambandið er í sjálfu sér ekkert flókið. Menn tala um það eins og það sé eitthvað óljóst hvað í því felst. Það er ekkert óljóst. Ég held að við myndum velja úr, því að það sem við vildum taka úr Evrópusambandinu höfum við tekið inn í EES-samninginn. Ég held að það sé svona stutta svarið. En það þarf að ræða þetta ítarlegar.

Varðandi breytingar vegna Covid þá höfum við alltaf kallað eftir fleiri fjarfundum. Núna hafa þeir orðið. Ég hef ekki trú á því að þeir fari. En það er ekki nóg. Það er miklu auðveldara að vera á fjarfundum, sama hvort það er með útlendingum eða Íslendingum, ef maður þekkir fólkið. Persónuleg tengsl fara aldrei út úr stjórnmálum eða alþjóðamálum eða neinu öðru.

Gott að hv. þingmaður kemur að Atlantshafsbandalaginu því að þegar Covid kom upp unnu ríki Atlantshafsbandalagsins saman. Öryggismál eru miklu víðfeðmari heldur en bara þessi hefðbundnu. Við erum líka að horfa á netógnir, (Forseti hringir.) netöryggismálin og svo sannarlega þessi mál sem ganga yfir okkur núna.