150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

utanríkis- og alþjóðamál.

749. mál
[12:22]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég þekki ekki til þessa þingmáls sem hv. þingmaður vísar til. Við erum auðvitað búin að leggja mikla vinnu í skýrslugerð, t.d. EES-skýrsluna, og við höfum svo sannarlega með mjög skipulögðum, ákveðnum og markvissum hætti verið að vinna að hagsmunum okkar á öðrum vettvangi gagnvart mikilvægum löndum og markaðssvæðum. Í mínum huga liggur alveg fyrir að við erum með ágætar greiningar en síðan þurfum við að framkvæma þær. Ég held, virðulegur forseti, að á undanförnum árum og áratugum, svo það sé bara sagt, höfum við verið svolítið villt í holtaþoku þegar kemur að umræðunni um utanríkismál. Það hefur verið dýrt vegna þess að það hefur gert að verkum að það hefur vantað að við séum með áhersluna á hagsmunagæslu þar sem við erum í samstarfi og þurfum að gæta hagsmuna okkar. Ég sannfærist meira um þá skoðun með hverjum deginum sem líður.