150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

utanríkis- og alþjóðamál.

749. mál
[12:27]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina í þessu svo mjög mikilvæga máli. Það sem við erum að horfa á er heimskreppa og hún muni ekki liðkast og við fáum ekki viðspyrnu fyrr en við getum opnað landamæri. Þess vegna hef ég frá fyrsta degi á öllum þessum fundum með kollegum á Norðurlöndunum vakið máls á því að mér finnst að Norðurlöndin eigi að ganga á undan með góðu fordæmi. Þetta er hins vegar ekki eiginlega á borði utanríkisráðherra. Nú hefur forystan verið hjá Danmörku og við beindum því sérstaklega á síðasta fundi til dómsmálaráðherra sem fer með þessi mál í Danmörku að hún kallaði kollega sína saman til að ræða nákvæmlega þessi mál. Ég hef líka tekið þessi mál upp við aðra kollega mína sem ég hef átt samskipti við eins og í norrænu ríkjunum og Eystrasaltsríkjunum. Sömuleiðis hef ég falið öllum sendiráðunum að kanna með óformlegum hætti hvaða möguleikar eru og hvort það sé áhugi t.d. á tvíhliða för. Síðan er ríkisstjórnin — og aftur, þetta er ekki á mínu borði að öðru leyti en því að ég kem auðvitað að þessu sem utanríkisráðherra (Forseti hringir.) — og við að skoða það í vinnuhópi hvað við getum gert ein og sér því þetta er mjög mikilvægt eins og hv. þingmaður vísaði til.