150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

utanríkis- og alþjóðamál.

749. mál
[12:49]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég spyr mig að því hvort hæstv. ráðherra hafi verið í salnum þegar ég flutti ræðuna, ég velti því bara fyrir mér. En ræða hæstv. ráðherra sagði mér reyndar mjög margt og hún er framhald af því að augljóst er að ráðherra boðar áfram stórpólitíska umræðu um EES-samstarfið. Það er fínt, við skulum fara yfir hana og ég vona að við sjáum einhvern tímann leiðarljósin í framtíðinni af hálfu hæstv. ráðherra. Það tal segir mér reyndar miklu meira. Það er verið að reyna að höfða til hópsins sem hefur flætt, m.a. frá Sjálfstæðisflokknum, yfir í Miðflokkinn og það er greinilegt að Sjálfstæðisflokkurinn er að stuðla að því að það fólk sem fór frá Sjálfstæðisflokknum yfir í Miðflokkinn komi heim aftur. Og ég sé að verið er að boða meiri harðlínu í Evrópumálum og í alþjóðasamstarfi af hálfu utanríkisráðherra heldur en boðað hefur verið nokkru sinni.

Það er það sem ég les út úr þessu, og það er áhugavert að fylgjast með því, er að hæstv. ráðherra hefur engar áhyggjur af því hver stefna Bandaríkjamanna er í loftslagsmálum. Ég velti fyrir mér hvort hæstv. ráðherra hafi rætt við samstarfsflokk sinn, Vinstri græna í ríkisstjórn, hvort engar áhyggjur séu af því hvaða stefnu Bandaríkjamenn hafa í loftslagsmálum, af því að stefna Bandaríkjamanna í loftslagsmálum í dag er ógn við okkur Íslendinga og alla þá sem hafa tengsl við norðurskautið, ef menn átta sig ekki á því. En það kemur reyndar ekkert á óvart að úr þessum herbúðum séu menn bara húrrandi, hoppandi glaðir með allt sem kemur frá Trump. Það er hins vegar engin nýlunda fyrir mig.

Það sem ég vil hins vegar fá hér fram er að við sameinumst um að fara að vinna að hagsmunum Íslendinga til lengri tíma, kortleggja fjölþjóðlegt samstarf okkar. Er ég með þessu að segja að það sé allt glatað í Evrópusambandinu? Nei, ég er gagnrýnin á það sem hefur komið þaðan. Það er það sem ég sagði áðan, ég er gagnrýnin á það sem hefur m.a. gerst í Evrópusambandinu en líka víða um heim. Ég er hrædd við þá leið og þá vegferð sem bíður núna ef ekki er spyrnt við fótum varðandi lýðræðið. (Forseti hringir.) Það er það sem ég óttast og þess vegna vil ég hvetja hæstv. ráðherra til þess einmitt (Forseti hringir.) að fara að kortleggja hagsmuni okkar Íslendinga til lengri tíma í fjölþjóðlegu samstarfi. Þar liggja hagsmunir okkar í dag.