150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

utanríkis- og alþjóðamál.

749. mál
[12:52]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekki skýrði þetta málin mikið. Ég hef aldrei áður verið ásakaður um að taka öllu því sem frá Trump kemur og styðja það. En einhvern tímann er allt fyrst. Ég var að mótmæla því að það er ekki rétt að Bandaríkjamenn hafi lamað samstarf við Norðurlönd. Sú fullyrðing getur ekki staðið hér án þess að hún sé leiðrétt, því að það er bara einfaldlega ekki rétt. Það sem við lögðum upp með og samstaða náðist um er það sem við erum að vinna með í formennskuáætlun okkar.

Varðandi framtíðarsýn, við eigum alltaf að líta til framtíðar, það höfum við gert þau ár sem ég hef verið í ráðuneytinu. Þess vegna kemur skýrslan um utanríkisþjónustu til framtíðar. Þegar við erum að skoða EES-málin erum við ekki að líta í fortíðarspegilinn nema bara til að læra og skoða og meta stöðuna. Ef það er harðlína að gæta hagsmuna okkar í EES-samstarfinu, ókei, þá gengst maður bara við því, ég held að það sé mjög góð harðlína. Ég vona að allir hv. þingmenn séu harðlínumenn hvað það varðar að gæta hagsmuna okkar í því mikilvæga samstarfi. Ég er þeirrar skoðunar og þess vegna var farið í ákveðnar breytingar. Ég held að við höfum ekki náð fullkomnun í því, við höfum ekki staðið okkur nógu vel í því en við getum gert betur. Ég er harðlínumaður þegar kemur að því að gæta hagsmuna Íslands og ég vona að hv. þingmaður sé það líka. Ég vil treysta því og trúa.

Við fórum strax í þá vinnu og settur var á hópur til þess að læra af því hvað hefur gerst núna undanfarnar vikur og sömuleiðis að leggja upp með það hvernig við getum sinnt hagsmunum Íslands sem best í þeirri stöðu sem við erum í núna. Ég held burt séð frá þessari umræðu sem við erum að taka núna, þá sé miður, og ég vona að ég hafi rangt fyrir mér, að nokkuð mikill tími muni fara í ákveðna hagsmunagæslu sem við höfum ekki þurft að sinna í nokkuð langan tíma vegna góðrar stöðu í heildina í alþjóðamálum. Og þá er ég sérstaklega að vísa til stuðnings við útflutningsfyrirtækin vegna þess að okkur liggur á sem aldrei fyrr að auka verðmætin í okkar landi (Forseti hringir.) og við munum aldrei ná því upp nema með því að auka útflutningsviðskipti aftur.