150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

utanríkis- og alþjóðamál.

749. mál
[13:07]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu þó að eðli málsins samkvæmt þurfum við ekki að vera sammála í öllu. Varðandi síðustu spurninguna sem hv. þingmaður kom með þá er engin stefnubreyting. Við byggjum varnarsamstarf okkar og öryggissamstarf á aðildinni að Atlantshafsbandalaginu, og erum virkir þátttakendur í því, og á tvíhliða varnarsamningi við Bandaríkin. Það hefur alltaf legið fyrir hvað það felur í sér. Við erum ekki með her en við erum hins vegar með aðstöðu sem nýtist okkur, ekki bara í öryggis- og varnarmálaþættinum, heldur er borgaraleg starfsemi, sem okkur finnst vera sjálfsögð og er sjálfsögð og verður alltaf að vera, að mjög stórum hluta byggð upp í tengslum við það samstarf.

Og svo það sé alveg á hreinu, af því að mér finnst hv. þingmaður vera á svipuðum stað og sá þingmaður sem hér talaði áðan: Ég er alltaf til í að ræða ESB-mál, alltaf. (LE: Ég var ekki að tala um ESB.) Þá misskildi ég hv. þingmann en hins vegar, ef við ræðum utanríkismál og alþjóðamál, þá mega menn ekki vera reiðir ef ekki eru allir sammála. Hv. þingmaður renndi hérna ágætlega yfir samstarf okkar við Sameinuðu þjóðirnar sem er gríðarlega mikilvægt og ég held að við getum verið ánægð með framlag okkar þar og við eigum alltaf að vera gagnrýnin á eigin störf, Atlantshafsbandalagið, mannréttindaráðið, sem er auðvitað partur af Sameinuðu þjóðunum en við höfum tekið sérstaklega út úr, og EES. Það kemur fram t.d. í skýrslunni að það eru 600 vinnuhópar sem við getum haft aðgang að í gegnum EES-samstarfið. Við þurfum að vera mjög vakandi að vakta þá hópa þegar kemur að samstarfi okkar. Svo er það Norðurskautsráðið, og ég ítreka aftur að upplegg okkar fól m.a. í sér loftslagsmál og formennskuáætlunin hefur gengið eftir og samstarfið gengur vel. Svo fór hv. þingmaður í nokkuð sem ég veit að hann hefur mikinn áhuga á, sem er þróunarsamvinnan. Þetta er eitthvað sem tengist ekki bara í nútíð heldur framtíð og við eigum að hafa áherslur hvað varðar alla þessa þætti.